Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ísrael og Barein taka upp stjórnmálasamband

12.09.2020 - 00:24
epa08655033 Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu during his visit to the Israeli city of Beit Shemesh, near Jerusalem, on 08 September 2020. Beit Shemesh is one of the Israeli cities with a high morbidity of coronavirus and a large Ultra-Orthodox community.  EPA-EFE/Alex Kolomoisky / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Yedioth Ahronothý POOL
Stjórnvöld í Ísrael og Barein hafa komist að samkomulagi um að koma samskiptum ríkjanna í eðlilegt horf. Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá þessu á Twitter. Þar sagði hann að Barein væri annað Arabaríkið til þess að lýsa yfir friði við Ísrael. Ríkin hafa ekki átt í stríði.

Flest Arabaríki hafa sett Ísrael stólinn fyrir dyrnar, nema ríkið leysi deilumál sín við Palestínu. Í síðasta mánuði slóu Sameinuðu arabísku furstadæmin fyrst til og samþykktu að koma samskiptum sínum við Ísrael í eðlilegt horf. Trump átti þar einnig hlut að máli.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, kvaðst spenntur fyrir því að hafa landað öðrum friðarsamningi við Arabaríki. Hann sagði í yfirlýsingu að nýtt friðartímabil sé hafið. Barein er aðeins fjórða Arabaríkið til þess að viðurkenna Ísraelsríki síðan það var stofnað árið 1948. 

Andstaða við Íran sameinar

Leiðtogar Palestínu brugðust reiðir við fregnunum. Utanríkisráðuneytið kallaði sendiherra sinn í Barein heim og í yfirlýsingu lýsa stjórnvöld miklum harmi vegna áhrfa samkokmulagsins á réttindi palestínsku þjóðarinnar. Palestína hefur lengi reitt sig á stuðning Arabaríkja varðandi brotthvarf Ísraelsmanna úr landtökubyggðum og fyrir palestínsku ríki.

Talið er að sameiginlegar áhyggjur ríkjanna af ástandinu í Íran hafi sitt að segja í ákvörðun stjórnvalda bæði í SAF og Barein. Ríkin standa bæði með Sádi Arabíu, sem hefur átt í hörðum deilum við Íran síðustu áratugi.