Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hjartsláttartruflanir, mæði og miklir vöðvaverkir

Mynd: Kristín Ýr Gunnarsdóttir / Aðsend mynd
Mun fleiri glíma við eftirköst COVID-19 en búist var við. Þetta segir forstöðumaður lyflækninga og endurhæfingarþjónustu Landspítalans. Ung kona sem greindist fyrir hálfu ári er enn með slæma verki, hjartsláttartruflanir og mæði.

Ljóst er að töluverður fjöldi fólks sem fengið hefur COVID-19 glímir við eftirköst sjúkdómsins, jafnvel þótt margir mánuðir séu síðan það veiktist. Alls eru tæplega 800 manns í Facebook-hópnum „Við fengum Covid19“. Margir sem hafa tjáð sig þar hafa lýst slæmum eftirköstum.

Er að ágerast

Á meðal þeirra sem hafa deilt reynslu sinni á síðunni er Kristín Ýr Gunnarsdóttir. Kristín, sem er 37 ára, greindist í mars og er enn að glíma við slæm eftirköst.

„Það hafa bæði verið hjartsláttartruflanir, mæði og rosalega miklir vöðvaverkir. Ef ég hreyfi mig í dag, að einhverju ráði, þá ligg ég yfirleitt í einn til tvo daga með svakalega vöðvaverki, hausverk og annað,“ segir Kristín.

„Og ég á kannski svolítið skýrt dæmi, því að í febrúar hljóp ég samtals 100 kílómetra. Ég greinist svo með COVID í mars og er í einangrun í tæpan mánuð. Núna, hálfu ári síðar, get ég ekki hlaupið fimm kílómetra án þess að liggja alla vega í sólarhring, alveg að drepast. Og ég er svona tvo, þrjá daga að ná líkamanum í eitthvert samt lag.“

Og finnst þér þetta ekkert vera að lagast?

„Nei. Mér finnst þetta frekar vera að ágerast ef eitthvað er.“

„Miklu meira“

Runólfur Pálsson forstöðumaður, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítalans, segir að heilbrigðisyfirvöld viti ekki hversu margir Íslendingar glími við eftirköst COVID-19.

„Nei. Við vitum það í rauninni ekki. Við vitum hins vegar að umfangið er umtalsvert. Hversu mikið vitum við ekki. Við höfum haft vísbendingar um þetta alveg frá því í vor, eftir fyrstu bylgju faraldursins. Einstaklingar hafa verið að leita til okkar síðan þá,“ segir Runólfur.

„En það hefur komið á daginn í umræðunni að umfangið er miklu meira en gert var ráð fyrir og að þessir einstaklingar virðast þurfa mikla þjónustu sem krefst skipulegrar og kerfisbundinnar nálgunar. Og það er einmitt í skoðun núna, hvernig eigi að bregðast við því.“

En hafið þið orðið vör við alvarleg eftirköst veirunnar?

„Við höfum séð dæmi um það, já.“

Runólfur segir að í undirbúningi sé rannsókn á eftirköstum COVID-19 hér á landi. 

„Við höfum vísbendingar úr rannsókn vísindahóps hjúkrunarfræðinga á Landspítala sem gefur til kynna að stórt hlutfall þeirra sem sýktust í upphafi séu nú með langdregnar afleiðingar,“ segir hann.

Skipuleg nálgun

Kristín segist hafa reynt að leita sér lækninga, án mikils árangurs.

„Við sem sitjum eftir með þessi eftirköst, og erum þónokkuð mörg, við erum mikið í myrkrinu. Það vantar alveg að tala við okkur. Og læknirinn sem ég hitti á miðvikudaginn sagði að ég ætti ekki að mæta til vinnu á meðan mér liði svona, og að ég þyrfti algjörlega að slaka á. Sem er einhvern veginn svo furðulega galið af því að hvað á ég að gera? Hætta að vinna? Hætta að hreyfa mig? Hvað verður þá um andlegu heilsuna og hver ætlar þá heildrænt að hjálpa mér að fóta mig aftur?“

Runólfur er sammála því, að nauðsynlegt sé að heilbrigðiskerfið haldi með einhverjum hætti utan um þennan hóp sérstaklega.

„Þetta er mun meira en gert var ráð fyrir. Og það þarf einfaldlega skipulega nálgun. Heilsugæslan er með slíkt skipulag í undirbúningi,“ segir Runólfur.