Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fræðsluefni skortir fyrir konur sem flytja til Íslands

Mynd með færslu
 Mynd:
Konur af erlendu bergi brotnar, sem búsettar eru á Íslandi, skortir upplýsingar um réttindi sín. Gerendur í ofbeldi gegn þeim nýta sér jafnvel þekkingarskort þeirra. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Samtaka um kvennaathvarf.

Þátttakendur í samantektinni voru tíu konur sem dvöldu í athvarfinu um hálfs árs skeið, frá ágúst 2019 til febrúarloka 2020. Átta þeirra voru á aldrinum átján ára til fertugs, ein á fimmtugsaldri og ein á sextugsaldri.

Helmingur þeirra kemur frá löndum utan EES, allar tala ensku auk móðurmáls síns en aðeins þrjár tala íslensku. Flestar eru í fullu starfi eða fæðingarorlofi og sex þeirra eiga börn.

Kallað eftir fræðsluefni

Í samantektinni segir að konur sem leitað hafi til athvarfsins segi þeim hafa verið hótað að börn þeirra yrðu tekin af þeim og að ef þær færu fram á skilnað yrði þeim bannað að dvelja áfram í landinu.

Samtök um kvennaathvarf kalla eftir því að Þjóðskrá, sýslumannsembætti og Útlendingastofnun útbúi fræðsluefni um helstu réttindi kvenna á Íslandi. Efnið þyrfti að vera á mörgum tungumálum og afhent konunum þegar þær leituðu til stofnananna við komuna til landsins.

Slík fræðsla kæmi þolendum heimilisofbeldis til góða og tæki af allan vafa um réttindi og skyldur fólks í sambúð eða hjónabandi á Íslandi.

Mætti skerpa verklag á heilbrigðisstofnunum

Konurnar lýsa margs konar ofbeldi af hendi sambýlis- eða eiginmanna sinna, kærasta eða fyrrverandi kærasta. Helmingur ofbeldismannanna er íslenskur en fjórir eru samlandar kvennanna.

Flestar þeirra kvenna sem hlutu líkamlega áverka vegna heimilisofbeldis segjast hafa sagt heilbrigðisstarfsfólki frá ástæðum áverkanna. Í samantektinni segir að mögulega mætti skerpa verklag á heilbrigðisstofnunum þegar kemur að móttöku fólks sem orðið hefur fyrir heimilisofbeldi.

Skrá þyrfti málin í sjúkraskrárkerfi og upplýsa um frekari úrræði. Með því mætti draga úr ítrekuðu ofbeldi.

Lögregla virðist bregðast vel og rétt við þegar hún kemur á vettvang. Ein konan sagðist löngu hafa losað sig úr ofbeldissambandi sínu hefði lögregla í heimalandi hennar brugðist við með sama hætti og sú íslenska.

Sömuleiðis fengu konur upplýsingar um kvennaathvarfið eftir að lögregla og barnaverndaryfirvöld höfðu afskipti af máli þeirra. Fæstar kvennanna virðast hafa vitað af tilvist athvarfsins, eða vantað forsendur til að yfirgefa heimili sitt og leita langað.

Yfirmenn kvennanna á vinnustað, vinir og leikskólastarfsfólk virðist vakandi fyrir ofbeldinu og hafi aðstoðað þær við að leita sér aðstoðar með því að tilkynna lögreglu eða félagsráðgjafa um það. Það hefði hjálpað þeim við að komast í Kvennaathvarfið.

Líður betur að dvöl lokinni

Óvissa um framtíðina dró nokkuð úr konunum við að leita þegar til Kvennaathvarfsins, einnig áhyggjur af viðhorfi annarra til sambandsslitanna, fjárhagslegri afkomu og mögulegum samastað að dvöl lokinni.

Þeim finnst mörgum kerfið svifaseint og að upplýsingar skorti um úrræði þeim til handa. Engin kvennanna hafði fengið neyðarhnapp þótt flestar segðust óttast um líf sitt og innan við helmingur kærði eða fékk nálgunarbann á ofbeldismanninn.

Engin þeirra sneri þó aftur heim til sambýlis- eða eiginmannsins að lokinni dvöl í athvarfinu og allir sögðu að sér liði betur að henni lokinni.