Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Forseti Perú ákærður fyrir embættisglöp

12.09.2020 - 08:12
epa08660319 A handout photo made available by Peru's Presidency shows the President of Peru Martin Vizcarra (C) speaking during an address to the Nation, at the Government Palace, in Lima, Peru, 10 September 2020.  EPA-EFE/Peru's Presidency HANDOUT EDITORIAL USE ONLY / NO SALES HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - Peru's Presidency Andina EFE
Ríkisþing Perú samþykkti í gærkvöld að ákæra forsetann Martin Vizcarra fyrir afbrot í embætti. Hann er sakaður um að hafa hindra framgang rannsóknar á spillingu embættismanna í ríkisstjórn hans. Vizcarra fær að verja sig í þingsal á föstudag. Eftir það fara fram umræður og atkvæðagreiðsla um hvort hann sé sekur eða saklaus. Minnst 87 af 130 þingmönnum verða að telja hann sekan til þess að hann verði sviptur embætti.

Vizcarra sagði í sjónvarpsávarpi í gærkvöld að hann ætli ekki að flýja undan réttvísinni. Hann sagðist ekkert hafa að fela, en sagði þingmönnum að þeir ættu að fara varlega, sýna ábyrgð, og taka þá ákvörðun sem þeir telja nauðsynlega.

Vizcarra komst til valda árið 2018. Hann aflaði vinsælda kjósenda með herferð sinni gegn spillingu, en jafnframt óvinsældir meðal þingmanna. Vizcarra er ekki flokksbundinn. Þingmenn eru meðal annars ósáttir við tillögu hans um að banna dæmdum glæpamönnum að bjóða sig fram til opinbers embættis.

Ákæran gegn Vizcarra er vegna hljóðupptöku þar sem hann heyrist biðja ráðgjafa sína um að þegja um atriði varðandi ráðningu hans á söngvara sem ráðgjafa sínum í menningarmálum. Málið komst í hámæli í maí eftir að fjölmiðlar komust á snoðir um að lítt þekktur tónlistarmaður, Richard Cisneros, hafði stært sig af því að hann hafi fengið starf sem ráðgjafi í menningarmálaráðuneytinu. Alls er talið að hann hafi fengið jafnvirði um 1,4 milljóna króna greiddar fyrir störf sín.

Forsætisráðherrann Walter Martos fordæmir viðbrögð þingsins við málinu og segir þingheim setja valdarán á svið. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV