Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Formaður BHM vill hækka bætur um 100.000

Mynd með færslu
 Mynd: BHM
Aldrei hafa jafn margir með háskólamenntun verið atvinnulausir. Koma þarf betur til móts við þennan hóp með því að hækka atvinnuleysisbætur um 100.000 krónur. Þetta segir Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður Bandalags háskólamanna.

Samkvæmt nýjustu tölum frá Vinnumálastofnun eru um 4.500 háskólamenntaðir án atvinnu. Til samanburðar voru 2.500 háskólamenntaðir án vinnu árið 2009 í kjölfar bankahrunsins. Þórunn segir að viðskipta- og lögfræðimenntað fólk sé sá hópur háskólamenntaðra sem helst sé án vinnu. 

„Það var beinlínis gert út á það fyrir 10 árum eða svo að fólk sækti sér aukna menntun til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði, En á vinnumarkaði hefur staðan verið þannig að það eru ekki jafn mörg störf í boði og þyrfti fyrir allt þetta menntaða fólk.“

Þórunn segir brýnt að hækka tekjuþak atvinnuleysisgreiðslna, sem nú er um 456 þúsund krónur á mánuði. Lenging atvinnuleysis bótatímabilsins úr þremur mánuðum í sex sé skref í rétta átt en það dugi ekki til.

Við blasi að mjög margir verða fyrir miklu tekjufalli þegar þeir missa vinnuna. „Það dregur úr því með því að lengja í tekjutengingartímabilinu, en okkur finnst það ekki endurspegla meðaltekjur okkar fólks á vinnumarkaði og þess vegna þyrfti að lyfta því þaki. Gleymum því heldur ekki að strípaðar atvinnuleysisbætur eru allt of lágar - þær eru 289 þúsund krónur rúmar og það heldur ekki úti heimilisrekstri hjá nokkrum manni.“

Hversu hátt þyrfti að lyfta þakinu? „Ég vil kannski ekki nefna sérstakar tölur en ég myndi nú halda að það væri ágætis skref að lyfta því upp um 50 - 100.000 krónur, að minnsta kosti til að byrja með,“ segir Þórunn.