Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Danmörk: Um 700 fjölmiðlakonur fordæma kynjamisrétti

12.09.2020 - 12:23
Erlent · #Metoo · Danmörk · Evrópa
Mynd: Pixabay / Pixabay
Hundruð kvenna, sem starfa við fjölmiðla í Danmörku, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem kynjamisrétti er fordæmt. Hún er sett fram sem stuðningsyfirlýsing við fjölmiðlakonuna Sofie Linde sem nýlega talaði opinskátt um kynjamisrétti í stéttinni í skemmtiþætti.

Sjö hundruð og ein kona skrifar undir skjalið sem er sett fram sem stuðningsyfirlýsing við fjölmiðlakonuna Sofie Linde. Hún kom fram í skemmtiþætti á TV2 nýlega og talaði þar opinskátt um kynjamisrétti í fjölmiðlageiranum. Linde, sem er aðalkynnir X-Factor í Danmörku var nýlega í kjaraviðræðum. Þegar hún bar fram launaósk sína var svarið: Þetta er áhugaverð upphæð sem þú biður um, en þú verður að átta þig á því að ef þú færð þessi laun verður þú hæst launaða konan. Ræða hennar hefur vakið gríðarlega athygli í Danmörku.

Hótaði að eyðileggja feril hennar

Linde er þrítug að aldri og segist hafa upplifað karlrembu og misrétti vegna kyns margoft frá því hún hóf störf átján ára gömul hjá danska ríkissútvarpinu. Hún hafði nýlega hafið störf þegar blásið var til julefrokost veislu. Linde segir að þá hafi ein helsta stjarna DR komið upp að sér og hótað að eyðileggja feril hennar vilji hún ekki veita honum munnmök. Linde uppskar svo mikið lófaklapp þegar hún beindi orðum sínum til mannsins og sagði feril sinn hafa gengið ágætlega þrátt fyrir að hafa neitað. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV