Auðvelt að fela drykkjuna með beljunni

Mynd: Orri Freyr Rúnarsson / .

Auðvelt að fela drykkjuna með beljunni

12.09.2020 - 10:37

Höfundar

Jónína Benediktsdóttir segist alls ekki vera hætt að rífa kjaft þrátt fyrir að lítið hafi farið fyrir henni í opinberri umræðu upp á síðkastið. „Nei, nei, nei. Ég ríf kjaft og svo bara gleymi ég því. En ég er ekki móðgunargjörn þó fólk svari mér. Ég móðgast ekki en leiðist þegar fólk getur ekki tekið samtalið og flýr af hólmi.“

Jónína var gestur Sigurlaugar M. Jónasdóttur í Segðu mér. Hún veit fullvel að hún að hún er umdeild og segist gera grín af því í fyrirlestrum sínum og námskeiðum. „En þetta er nú allt að breytast. Ég hef unnið mér inn virðingu fyrir minni heilsumeðferð undanfarin ár, og þessi dómstóll götunnar tengist henni ekki, heldur mínum pólitísku skoðunum. Ég er sannfærð um að samfélag sem hugsar ekki vel um börn, gamalt fólk og öryrkja, það er vont samfélag, og í dag búum við í vondu samfélagi.“ Hún segist lítið fyrir að kvarta heldur láti verkin tala. „Ég hef Jesú Krist að leiðarljósi og sýni sárin mín, eins og þegar hann sannaði að hann væri upprisinn. Þannig langar mig að eyða lífinu, að fólk viti hver ég er. Ég er ekki bara góð og dugleg, heldur eru í mér sár. Mörg þeirra mjög sár og það hefur blætt mikið úr þessum sárum.“ Hún flaggar þeim hiklaust og segir suma ráða við það en aðra síður.

Þegar Jónína var 48 ára byrjar hún að drekka áfengi. „Þegar ég var í háskóla var mikið um hassreykingar og drykkju en ég smakkaði aldrei, ég var náttúrulega í bahá'í-trúnni þar sem þetta var stranglega bannað.“ Það var mikið um alkóhólisma í fjölskyldu hennar. Hún segir að afi hennar hafi verið mikill drykkjumaður sem fór illa með ömmu hennar. „Það er ekki fyrr en börnin mín fara að heiman og ég orðin ein, búin að lenda í ólgusjó, missa fyrirtækið mitt í hendur óreiðumanna, og allt tekið af mér, æran og mannorðið, þá komst ég að því einn daginn að rauðvín höfðaði vel til mín.“ Stundum hafi verið glens og gaman og hún upplifði ekki að hún ætti við vandamál að stríða. „Gott fólk verður þessum djöfli að bráð og þetta er bara hreint helvíti að verða fíkill.“ Heimur fólks sem glímir við fíknivanda snúist í raun minnst um áfengi í dag. „Þetta er orðið hroðalegt, mafíukennt, svo grimmt og brútalt.“

Meðvirkni og tengslaleysi

Einn daginn þegar Jónína vaknaði timbruð eftir rauðvínsdrykkju ákvað hún að hætta. „En ég fer heim og er svo þreytt eftir vinnuna að ég á skilið eitt rauðvínsglas. Svo er það lygin, þetta eina glas verður að tveimur, flösku og svo er komin belja. Það er svo auðvelt að fela drykkjuna með beljunni, þá sést ekki hvað þú ert búin að drekka mikið. Öll mín mistök í lífinu hafa verið undir áhrifum áfengis.“ Á endanum skráði Jónína sig í meðferð í Krísuvík en hún segir að meðvirkni hafi plagað hana allt hennar líf. „Það er svo mikið tengslaleysi sem myndast þegar maður er í neyslu. En þarna gat ég unnið þetta í ró og næði með yndislegu fólki.“

Jónína var ung í háskóla í Kanada og þegar hún kom aftur til Íslands sá hún um morgunleikfimi Ríkisútvarpsins svo eftir var tekið, og Pétri Péturssyni þuli ofbauð til að mynda hressleikinn. „Hann skyldi ekkert hvaðan þessi geimvera kom. Ég kom beint frá Kanada í háum hælum og þröngum kjól með sítt ljóst hár, og rosa glöð. Kom inn í eitthvað gallsúrt Ríkisútvarp.“ Einna helst var Pétri uppsigað við þá „graðhestatónlist“ sem ómaði undir morgunleikfimi Jónínu. „En útvarpsstjóri komst í málið og ég fékk afsökunarbeiðni. En svona finnst mér gaman, við Pétur urðum síðan góðir vinir.“

Þessi dægrin reynir Jónína að hvílast sem mest og slappa af, eftir að hafa lent í eins konar kulnun á síðasta ári. „Ég var úti í Póllandi og man bara ekkert. Systir mín bjargaði mér, ég rétt komst heim. Þetta tengist bara ofálagi og langvarandi streitu og kvíða. Þetta er náttúrulega búið að vera svolítið skrautlegt líf síðan ég giftist Gunnari í Krossinum.“ Það hafi verið fjörlegt áður þegar hún var gift Jóhannesi í Bónus en svo hafi það farið á yfirsnúning með hjónabandinu við Gunnar. „Þá var Guði blandað í málið. Þó völd mín séu mikil ræð ég ekki við þann heilaga anda.“ Á þessum tíma hafi verið títt gert lítið úr henni og trú hennar.

Þarf ekki að taka ábyrgð á öllu

Jónína vann í 18 ár við rekstur heilsuhótels síns í Póllandi en nýverið byrjaði hún með heilsumeðferðir á Ísland. „Þá þurfti ég að fara að glíma við einhvern landlækni sem sá fyrir sér einhverjar stólpípur sem væru sýktar, og einhverjir maurar myndu skríða upp í rassinn á fólki.“ Jónína segist eiga þrjú yndisleg börn og fjögur frábær barnabörn. „Mesta vitleysan var að drekka áfengi, ef ég horfi til baka.“ Nú segist hún vinna eins lítið og hún geti, í fyrsta skipti á ævi sinni sem það eigi við. Hún hafi komið 13 ára í rútu frá Húsavík til Reykjavíkur og leigt íbúð með frænku sinni og byrjað að vinna. „Við unnum í Hlíðagrilli hjá frænda mínum. Í stuttum hvítum kjólum, eins og hálfgerðar gleðikonur.“

Hún segist hafa meira að gefa af sér nú en áður eftir að hún fór að slaka meira á. „Núna eru til dæmis margir hjúkrunarfræðingar í detox-meðferð hjá mér örmagna, búnar að ganga upp að öxlum fyrir þjóðina. Að hlusta á þær, ég fæ bara tár í augun, því þeim líður nákvæmlega eins og mér leið þegar ég fór í mitt burnout.“ Jónína telur þessa kulnunaröldu síðustu ára geta kennt okkur eitt: „Við eigum ekki að vinna meira en svona sex tíma á dag. Það er nóg. Við þurfum ekki að taka ábyrgð á öllu í kringum okkur. Ég er hætt að ímynda mér það, að ef páfinn verður óléttur, að ég hafi barnað hann.“

Sigurlaug M. Jónasdóttir ræddi við Jónínu Benediktsdóttur í Segðu mér. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild í útvarpsspilara RÚV.

Tengdar fréttir

Mannlíf

„Þarna eiga Íslendingar að skammast sín“