Allt að 160% verðmunur á milli verslana

12.09.2020 - 10:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Verslanir 10-11 voru með hæsta verðið í 73 tilfellum af 104 í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var í vikunni. Bónus var oftast með lægsta verðið, í 60 tilfellum af 104. 

Könnunin náði bæði til lágvöruverðsverslana og minni verslana sem eru margar hverjar með lengri opnunartíma auk verslana sem eru staðsettar á landsbyggðinni og eru hluti af stærri keðjum. Í 42 tilfellum af 104 var yfir 100% munur á hæsta og lægsta verði, þar af var munurinn í 14 tilfellum yfir 160%. Í 50 tilfellum var munurinn 40-100%.

Á eftir 10-11 var Samkaup Strax næst oftast með hæsta verðið, í 11 tilfellum, og Krambúðin í níu tilfellum. Á eftir Bónus með lægsta verðið var Krónan næst með lægsta verð í 13 tilfellum og Fjarðarkaup í níu tilfellum.

Í yfirliti ASÍ kemur fram að verslanir Iceland hafi fært sig nær lágvöruverslunum í verði en áður, og var oft með lægra verð en Hagkaup í þessari könnun. Í fyrri könnunum hefur það hins vegar verið á hinn veginn.

Nokkur umræða hefur verið á landsbyggðinni um vöruverð, ekki síst eftir að Samkaup breytti Kjörbúðum í Krambúðir eins og raunin var í Mývatnssveit. Í könnun ASÍ kemur fram að verð í Krambúðum er í mörgum tilfellum tölvert hærra.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi