Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vill byggja nýjan Lundarskóla í stað endurbóta

11.09.2020 - 15:53
Mynd með færslu
 Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn
Endurgerð Lundarskóla verður boðin út innan skamms. Bæjarráðsfulltrúi talar á móti framkvæmdinni og segir ákvörðunina ekki hafa verið kynnta nægilega vel. Hann vill byggja nýjan skóla og telur kostnað endurbóta geta endað í 80 prósentum af kostnaði nýbyggingar.

Meirihluti bæjarráðs Akureyrar hefur veitt heimild til útboðs á endurgerð A-álmu, tengigangi og anddyri Lundarskóla. Fyrir páska kom í ljós mygla í hluta Lundarskóla. Í kjölfarið var ákveðið að flýta endurnýjun á húsnæði skólans. Í stað þess að lagfæra aðeins skemmdir vegna myglu verður farið í gagngera endurnýjun á skólanum og er kostnaðurinn metinn á 1,6 milljarða króna.

Minna rask á skólastarfi

Í fundargerð bæjarráðs frá 10. september bókar meirihlutinn að ákvörðun um endurbyggingu skólans sé tekin að vel ígrunduðu máli. Sérstök áhersla hafi verið lögð á hagsmuni nemenda og skólasamfélagsins. Vinna við nýbyggingu myndi taka mun lengri tíma með tilheyrandi raski á skólastarfi, auk þess sem nýbygging hefði verið einum milljarði dýrari heldur en endurbætur. 

Telur kostnað verða mun meiri en áætlanir geri ráð fyrir

Gunnar Gíslason, bæjarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, greiðir atkvæði á móti útboðinu og segist með engu móti geta samþykkt það með þeim formerkjum sem sett séu fram. Ekki sé forsvaranlegt að leggja í áætlaðan kostnað við endurbyggingu í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um ástand bygginganna. Hann segir margt benda til þess að kostnaður verði mun meiri en áætlað sé og telur kostnað við endurbætur verða um 80 prósent af verði nýbyggingar.

Bráðabirgðahúsnæði þurfi ekki að hafa neikvæð áhrif

Hann segir hægt að brúa skólahald á meðan eldri byggingar séu rifnar og nýjar byggðar og þær lausnir geti verið mjög ásættanlegar í takmarkaðan tíma. Ekkert bendi til þess að það hafi neikvæð áhrif á skólastarf þótt það fari fram í bráðabirgðaaðstöðu um tíma og það sé réttlætanlegur „fórnarkostnaður“ að hafa skólastarf einum til tveimur árum lengur í bráðabirgðahúsnæði til þess að fá nýbyggingu. 

Þá sé þetta kjörið tækifæri til þess að reisa nýja leikskólabyggingu í stað Lundarsels og koma leik- og grunnskólastarfi í sömu bygginguna og ná þannig fram bæði samlegð og hagræði. Hann segist hafa verulegar áhyggjur af því að þessi ákvörðun meirihlutans hafi ekki verið kynnt foreldrum, starfsfólki og skólaráði með nægilega skýrum hætti áður en hún var tekin.