Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Viðurkennir brot á þagnarskyldu

11.09.2020 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Fyrrverandi starfsmaður Seðlabankans viðurkennir að hafa brotið þagnarskyldu þegar hann ræddi Samherjamálið við ráðgjafa sem vann fyrir útgerðarfyrirtækið. Brotið átti sér stað rúmu hálfu ári eftir að gjaldeyriseftirlit Seðlabankans gerði húsleit hjá fyrirtækinu.

 

Stundin greinir frá málinu í dag. Þar segir að Jón Óttar Ólafsson, ráðgjafi Samherja og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður, hafi hljóðritað samtal við fyrrverandi starfsmann gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands og skrifað skýrslu upp úr samtalinu. Starfsmaðurinn heitir Jónas Helgason og kom að rannsókn Seðlabankans á Samherjamálinu og tók einnig þátt í húsleitum bankans hjá fyrirtækinu. Samtalið á að hafa átt sér stað í nóvember árið 2012 en þá var Jónas ekki lengur starfsmaður Seðlabankans.

Fram kemur í umfjöllun Stundarinnar að Jónas hafi ekki vitað að Jón Óttar væri að vinna fyrir Samherja og heldur ekki að samtalið væri hljóðritað. Jónas viðurkennir hins vegar að hafa talað af sér og brotið þagnarskyldu.

Starfsmenn Seðlabankans er bundnir þagnarskyldu samkvæmt lögum og fellur þessi skylda ekki niður þó þeir láti af störfum. Brot gegn þessu varða sektum eða fangelsi en þetta mál er að öllum líkindum fyrnt.

Í samtali við fréttastofu í dag segist Jónas hafa talað frjálslega um hluti sem hann hefði átti ekki að gera. Hann segist axla fulla ábyrgð á því að hafa brotið trúnað.

Í svari Seðlabankans við fyrirspurn fréttastofu segir að brot gegn trúnaðarskyldu séu tekin alvarlega. Leiki grunur á að slíkt brot hafi verið framið séu mál rannsökuð og eftir atvikum gripið til viðeigandi ráðstafana, eins og segir í svari bankans.

Að öðru leyti vildi bankinn ekki tjá sig frekar um þetta mál. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV