Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Þau eiga sér framtíðardrauma“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þau eiga sér framtíðardrauma. Þetta segir Sema Erla Serdar, formaður Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk, um aðstæður fjögurra egypskra barna sem hafa búið hér á landi í rúm tvö ár. Samtökin gagnrýna ummæli Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra í sjónvarpsfréttum í gær, um að ekki yrðu gerðar reglugerðarbreytingar til að bjarga einstökum fjölskyldum sem fara í fjölmiðla.

Foreldrarnir, Dooa og Ibrahim, og börnin fjögur, þau Rewida, Abdalla, Hamza og Mustafa sem eru á aldrinum tveggja til tólf ára komu hingað til lands í ágúst 2018 og sóttu um alþjóðlega vernd. Útlendingastofnun hafnaði umsókninni í júlí í fyrra. Það staðfesti kærunefnd útlendingamála og til stendur að vísa fjölskyldunni úr landi á miðvikudaginn. Þau segja hættulegt að snúa aftur til Egyptalands vegna ofsókna sem þar bíða þeirra vegna pólitískrar þátttöku heimilisföðursins.

„Ég trúði varla mínum eigin eyrum þegar ég heyrði í dómsmálaráðherra í kvöldfréttum í gær,“ segir Sema Erla., „Við hjá Solaris teljum þau lýsa algjöru skilningsleysi á þeirri örvæntingu og þeim ótta sem fólk á flótta býr við. Þarna viðrar dómsmálaráðherra algeran skort á samkennd með því fólki sem heyrir undir þann málaflokk sem hún stýrir og ber ábyrgð á.“

Sema Erla segir að reynslan sýni að reglur um útlendinga séu oftar en ekki háðar túlkunum. „En í heild sinni snýst þetta ekki um einstakar fjölskyldur heldur snýst þetta um að koma á úrbótum í málefnum fólks á flótta Börnin hafa gengið hér í skóla og leikskóla. Þau eiga hér vini, þau eiga sér framtíðardrauma, eitthvað sem er ekki algengt hjá börnum á flótta.“