„Það rann ekki af mér í nokkur ár“

Mynd: Jökull Másson / Flickr.com

„Það rann ekki af mér í nokkur ár“

11.09.2020 - 10:30

Höfundar

„Mér er alveg sama þó ég fari í taugarnar á fólki,“ segir söngvarinn Geir Ólafsson sem lætur gagnrýnisraddir sér sem vind um eyru þjóta. „Ef ég hefði gert þetta í Ameríku væri ég heimsfrægur.“ Hann hefur glímt við kvíða síðan hann var sex ára en Geir er þakklátur í dag, hefur verið edrú í tuttugu ár og er að leggja lokahönd á nýja plötu.

Sveifluprinsinn Geir Ólafsson er flestum landsmönnum kunnur enda hefur hann verið mikið í sviðsljósinu bæði fyrir tónlistarflutning sinn og skrautlegt einkalíf. Geir hefur verið á milli tannanna á fólki og er bæði dáður og gagnrýndur en hann vaknar alltaf kátur: „Enda blasir alltaf við mér svo fallegt andlit, það er dóttir mín. Hún er svo mikill gleðigjafi að það er ekki annað hægt en að brosa,“ segir hann við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttir í Segðu mér á Rás 1. Hann lætur illt umtal Gróu á leiti hins vegar aldrei slá sig út af laginu og baktalar sjálfur aldrei annað fólk. „Ég horfi aldrei á fólk og hugsa: Mikið ofboðslega fer þessi maður í taugarnar á mér. Ég held að Guð hafi ákveðið að fyrst ég fer í taugarnar á svona mörgum sé ég ekkert að eyða tíma í þetta,“ segir hann. „Mér er alveg sama þó ég fari í taugarnar á fólki.“

„Ég man hvað ég var hræddur“

Geir kveðst þokkalega brosmildur en suma daga er vissulega lengra í brosið en aðra. Síðan hann var aðeins sex ára hefur hann glímt við kvíða sem hann segir hafa haft stórkostleg áhrif á sig. „Þetta hefur komið í sveiflum og örugglega mótað mig á margan hátt, bæði jákvæðan en ég hef líka þurft að berjast við drauga. Þetta virðist ekki ætla að fara af mér og ég hef þurft að vera í þessu.“ Hann man glögglega eftir fyrsta kvíðakastinu. „Ég var heima hjá vini mínum að leika mér og fann allt í einu fyrir ótrúlega óþægilegri tilfinningu. Ég man hvað ég var hræddur og vildi bara komast úr aðstæðunum. Það var sama hvað ég hljóp hratt heim, þetta fór ekkert heldur fylgdi mér,“ rifjar hann upp. „Þegar þetta leið hjá var ég svo þreyttur að ég held ég hafi sofið í marga klukkutíma. Það er kannski einn af fylgikvillum þessara mála hjá mér að ég verð afskaplega þreyttur eftir þetta og orkulaus.“ Kvíðaköstin héldu áfram að koma og fara og helltust yfir hann af fullum krafti þegar þegar hann var um átján ára en hafa fylgt honum síðan. Köstin lýsa sér þannig að hann fær hjartsláttatruflanir og svima og segir hann þau mjög líkamleg. „Þegar þetta kemur þarf ég að halda ró minni.“

Fiktaði við áfengi og drakk svo af ástríðu

Það hefur hjálpað honum mikið að opna sig um málið og ræða opinskátt um kvíðann. „Það var ekki þannig að ég skammaðist mín en það var ákveðinn léttir að segja frá. Í dag, ef ég er með mönnum sem ég þekki og treysti, þá vita þeir að ég er svona og að þetta er partur af mínu lífi.“ Það hjálpaði svo ekki þegar hann fór að neyta áfengis samhliða kvíðanum. „Ég byrjaði eins og aðrir að fikta við áfengi en ég fór með fullri ástríðu í það og gerði það rosalega vel,“ segir Geir kíminn. „Það rann ekki af mér í nokkur ár en svo ákvað ég að hætta því. Þá kom kvíðinn aftur en þetta er samt besta ákvörðun lífsins og ég þakka Guði fyrir það á hverjum degi að hafa verið án áfengis í tuttugu ár.“ Og þrátt fyrir umtal, kvíða og drykkju vorkennir hann sér aldrei yfir einu eða neinu eða barmar sér að ráði. „Ég ætla ekki að byrja á því núna, sérstaklega ekki þegar ég er orðinn faðir.“

Kennir dóttur sinni að láta engan vaða yfir sig

Hann kennir dóttur sinni að standa keik á sínu og láta ekkert slá sig út af laginu eða standa í vegi fyrir sér. Einn daginn tilkynnti hún til dæmis foreldrum sínum að hana langaði að fara klædd sem Ninja Turtles-skjaldbaka í leikskólann og það var auðvitað látið eftir henni. „Svo kom hún heim og sagðist ekki lengur vilja vera Turtles því það væri bara fyrir stráka,“ segir Geir. Þá höfðu félagar hennar í leikskólanum tjáð henni að það væri ekkert pláss í skjaldbökuhópnum fyrir stelpur. Faðir hennar hélt nú síður. „Ég segi: Þetta er ekki rétt hjá þér. Þú ferð á morgun og segir strákunum að þú sért hin eina sanna Ninja Turtles og þú látir ekki tala svona við þig. Og í hvert skipti sem ég fer með hana í leikskólann segi ég við hana: Vertu kurteis og láttu engan vaða yfir þig.“

„Þú ert aldrei kominn á leiðarenda“

Geir segist sífellt vera að læra eitthvað nýtt um sjálfan sig og tilveruna. „Mest hef ég lært af því að vinna með frábæru fólki en reynslan og þekkingin kemur þegar maður kemur fram að spila,“ segir hann. „Og ég hef verið ótrúlega heppinn að fá að vinna með ótrúlega mörgum og það er varla neinn músíkant sem er talinn vera góður sem ég hef ekki unnið með. En þetta var gagnrýnt svakalega og ég held að ef ég hefði gert þetta í Ameríku hefði ég orðið heimsfrægur en af því að ég gerði þetta hér þurfti einhver að hafa skoðun á því.“

Þó Geir hafi fengið blendnar viðtökur fann hann mikinn stuðning frá fjölmörgum aðdáendum og samstarfsfólki. „Þessir strákar stóðu við bakið á mér og ég man þegar Árni Scheving sagði: Mundu að fara að mennta þig, Geir, og læra áfram. Og ég hef gert það allar götur síðan,“ segir Geir sem hefur haldið ótrauður áfram við að koma fram, skapa tónlist og læra. „Hæfileiki einn og sér er ekki nóg. Maður þarf að vinna með hann og gefa sig allan. Þú ert aldrei kominn á leiðarenda.“

Þakklátur Kristjáni Jóhannssyni og Quincy Jones

Hann segist líka vera afar lánsamur með tengslanet sitt og að eiga vini í tónlistarmönnum sem hann lítur upp til. Þeir Kristján Jóhannesson eru til dæmis mestu mátar og svo þekkir Geir upptökustjórann Quincy Jones. „Ég hitti hann árið 2014 og það var alveg magnað. Eitt af því sem hann sagði við mig var: Ungi maður, mundu að þú verður að trúa á Guð og æfa þig,“ segir Geir sem tileinkaði sér hiklaust þessa speki og hefur gert allar götur síðan. „Ég held hann hafi meint, með að trúa á Guð, að koma vel fram við náungann. Því meiri virðingu sem þú berð fyrir fólki, því meiri líkur á að það vilji vinna með þér. Og þegar ég skoða hópinn sem ég hef unnið með er það magnað. Ég er lánsamur að geta sagt að ég er með bestu hljóðfæraleikara í heimi að vinna með mér. Það er mikill heiður og ég er þakklátur.“

Sagðist vera frægasti söngvari landsins og söng O Sole Mio fyrir konurnar

Geir kynntist eiginkonu sinni, Adriönu Patricia Sanchez Krieger, í Bláa Lóninu árið 2009. Hún hafði keypt sér æðadúnsæng í Dúni og Sæng, þar sem Geir starfaði, og það kom í hlut Geirs að búa hana til, sauma sængina saman og fara með hana á Hótel Bláa Lónsins. Þegar Geir bar að garði mætti hann hópi kvenna sem voru að gæsa vinkonu sína og þær vildu endilega fá mynd af sér með stjörnunni. „Þær hlaupa til mín og ég segi sjálfsagt, er í myndatöku með sængina,“ rifjar hann upp. Svo spyr önnur hvers vegna verið sé að taka myndir af honum og þá svarar hann: „Ég er frægasti söngvari þessa lands,“ segir Geir kankvís. Þar stendur Adriana sem spyr: „Viltu ekki bara sanna það?“ Það kom ekkert hik á Geir sem söng: O sole mio, fyrir hópinn og þar með hófst þeirra vinátta. Það er svo þremur árum síðar þegar Adriana er aftur komin heim til heimalandsins Kólumbíu og þau eru að spjalla saman á Skype sem Geir býður henni til Hollywood að sjá sig syngja. „Hún sló til og síðan höfum við verið saman. Svo eignuðumst við dóttur okkar 2016 og við giftumst ári síðar. Ég er svo ótrúlega heppinn.“

„Myndir þú vilja mæta Tyson?“

Adriana sé ótrúlegum töfrum gædd og elskuð og dáð hvar sem hún kemur. „Ég er þakklátur fyrir að hún sé konan mín og að við skulum eiga litla fjölskyldu,“ segir Geir. En hjónin eru ólík. „Sem betur fer. Ég myndi ekki vilja vera með henni ef hún væri eins og ég.“ En þrátt fyrir að vera svona lánsamur í einkalífinu og með samstarfsfélaga ítrekar hann að einhverjir vilji alltaf bregða fyrir sig fæti. En hann hefur svör við því. „Menn hafa viljað leggja stein í götu mína en myndir þú vilja mæta Tyson? Það sem Guð gefur manni getur maðurinn ekki tekið.“

Geir vinnur að nýrri plötu með lögum eftir bæði sig og aðra. Platan kemur að vonum út fyrir jólin og hann vonast til að Almannavarnateymið leyfi honum að halda jóla- og útgáfutónleika með pompi og prakt í desember.

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Geir Ólafsson í Segðu mér á Rás 1. Hægt er að hlýða á allan þáttinn í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Kippt inn í heim fullorðinna við fráfall föður síns

Kvikmyndir

„Mamma tók mig með á bannaðar glæpamyndir“

Menningarefni

„Þessi atburður setti fjölskylduna á hliðina“