Stjórnvöld farið fram „með hófsömum hætti“

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að frumskylda stjórnvalda sé að vernda rétt fólks til lífs og heilsu. Það sé ástæðan fyrir þeim ráðstöfunum sem nú eru í gildi á landamærunum og verða framlengdar til 6. október. „Við sjáum faraldurinn í gríðarlegum vexti í kringum okkur og lönd eru að grípa til róttækra ráðstafana. Og þegar aðgerðir stjórnvalda hér eru bornar saman við það sem er í gangi erlendis þá sést að við höfum farið fram með hófsömum hætti.“

Heilbrigðisráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun tvö minnisblöð frá sóttvarnalækni.

Annars vegar minnisblað um óbreytt ástand á landamærunum til 6. október og hins vegar styttingu sóttkvíar úr 14 dögum í 7 daga með sýnatöku á síðasta degi. Katrín segir síðarnefndu aðgerðina vera mjög ívilnandi, það þekki þeir sem hafi verið í 14 daga sóttkví og þeir séu orðnir býsna margir.

Katrín segir að eins staðan sé í dag séu um það bil þúsund manns að koma ti landsins á hverjum degi. Það standi yfir heilmikil vinna við að greina áhrif sóttvarnaráðstafana og starfshópur eigi að skila niðurstöðum í næstu viku.  Þá sé einnig verið að skoða lagaumhverfi og lagaheimildir sóttvarnaráðstafana.

Hún segir að það hafi verið samstaða um þessar aðgerðir innan ríkisstjórnarinnar en þetta sé auðvitað flókið úrlausnarefni og því mikilvægt að stóra myndin sé undir. „Við erum að leitast við að byggja á bestu mögulegu gögnum.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi