Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Spritt og grímur í skólum á Spáni

11.09.2020 - 07:14
Mynd: EPA-EFE / EFE
Rúmlega átta milljónir spænskra barna og unglinga setjast aftur á skólabekk í þessari viku eftir að hafa verið heima í hálft ár. Gríðarlegar varúðarráðstafanir eru í öllum skólum landsins vegna COVID-19 farsóttarinnar og mikið álag á kennurum í menntakerfi sem hefur verið fjársvelt árum saman.

Það er fyrsti skóladagur í breyttum heimi. Kennarinn byrjar daginn á að útskýra fyrir börnunum hvar þau þvoi sér um hendurnar og hvar þau spritti hendurnar og þegar börnin mæta í skólann á morgnana fara þau í röð, einn kennari sprittar hendur og annar skóna. Svo er hitinn mældur.
Engu að síður er mikil eftirvænting meðal yngstu nemendanna í grunnskólum Spánar eftir að snúa aftur í skólann eftir hálfs árs fjarveru. Og ekki bara á meðal þeirra yngstu, flestir hlakka til að snúa aftur, nú eða byrja í skóla. Það eru sléttir sex mánuðir síðan stjórnvöld á Spáni létu loka öllum menntastofnunum landsins allt frá leikskólum upp í háskóla.

Aftur í skólann eftir hálft ár heima

Samkvæmt upplýsingum frá OECD var Spánn á meðal þeirra landa sem allra síðust hófu kennslu að nýju eftir að skólum víða um heim var lokað, að hluta eða alveg, síðla síðasta vetur vegna COVID-19 farsóttarinnar. Stjórnvöld ákváðu að stytta ekki sumarfrí nemenda, þrátt fyrir að sumarleyfi skólabarna á Spáni sé með því lengsta sem þekkist. Þegar upp er staðið hafa spænsk skólabörn því verið fjarverandi frá skólanum í hálft ár. Afleiðingarnar geta verið alvarlegar og langvarandi. Í nýrri skýrslu OECD um áhrif COVID-19 á menntun er vitnað í hagfræðingana Eric Hanushek og Ludger Woessman, sem segja að þegar allir nemendur í einu samfélagi missa úr þriðjung skólaárs geti þjóðarframleiðsla dregist saman að meðaltali um eitt og hálft prósent það sem eftir lifir af 21. öldinni. Það er ekki svo lítið.

Innilokun skaði börn

En áhrif þess að vera svo lengi frá skóla eru ekki bara efnahagsleg. Þegar skólum var lokað á Spáni í mars var jafnframt sett á útgöngubann, þjóðin var meira og minna öll í sóttkví og börnin fengu ekki einu sinni að fara út að leika sér. Þetta er ein aðalástæða þess að öll áhersla er lögð á að skólar hefji aftur kennslu með eðlilegum hætti í þessari viku, því samkvæmt könnun sem gerð var í sumar, telja um 85 prósent foreldra hér í landi að þessi langa innilokun hafi haft skaðleg áhrif á líðan og andlegt ástand barna þeirra.
Og það er sem sé í þessari viku sem rúmlega átta milljónir grunn- og framhaldsskólanemenda snúa aftur í skólana. Og eins og áður sagði koma þeir í algerlega breytt umhverfi. Það hafa verið mikil átök í sumar að ná samkomulagi um með hvaða hætti það yrði. Í upphafi var í raun bara samstaða um eitt, skólastarf yrði að hefjast að nýju. Að lokum náðist samkomulag milli allra nema stjórnvalda í Baskalandi sem kusu að sitja hjá. Og þær eru margar og margvíslegar kvaðirnar sem á nemendum, kennurum og skólastjórnendum hvíla.

Allir með grímu

Bara til að nefna fáar þá þurfa allir nemendur frá sex ára aldri að ganga með grímur allan skólatímann að undanskildum nestistíma. Gæta þarf að því að lágmarksfjarlægð á milli nemenda sé einn og hálfur metri, líkamshiti hvers einasta nemanda er mældur í upphafi skóladags og sé nemandi með hita fær hann ekki að fara inn í skólann. Foreldrar mega ekki koma inn á skólalóðina og öll samskipti foreldra við skólastjórnendur fara fram í gegnum síma eða tölvupóst.
Já, og svo fara börnin út í frímínútur og á meðan eru öll borð og stólar sótthreinsuð. Svo hringir eða flautar kennarinn inn í tíma og þá þarf hver einasti nemandi að fara í gegnum sama ferlið, halda reglunni um einn og hálfan metra í röðinni og spritta hendur og skó.

Peningar eru þrætueplið

Allt kostar þetta peninga og það leiðir okkur að að helsta þrætueplinu í umræðunni um skólahald á Spáni þessi misserin, peningum.
Spænskt menntakerfi er í djúpum tilvistarvanda. Hann má, að mati margra blaðamanna sem fjalla um menntakerfið, fyrst og fremst rekja til áratuga togstreitu milli sósíaldemókrata og hægri manna, sem hafa skipst á að leiða ríkisstjórnir landsins allt frá því er lýðræði tók við af einræði Francos á áttunda áratug síðustu aldar. Á síðustu áratugum síðustu aldar tók spænska menntakerfið risaskref inn í nútímann og Spánverjar stærðu sig af því að vera komnir með menntakerfi sem stæðist velferðarríkjum norðursins fyllilega snúning.
En síðan hefur heldur fjarað undan. Stóran þátt í því á fjármálakreppan fyrir áratug. Framlög Spánverja til menntamála námu þá 53 milljörðum evra en drógust saman um 20 af hundraði næstu fimm ár. Í dag, rúmum tíu árum síðar eru þau enn lægri en þau voru fyrir hrun.

Stjórnmálamenn ná ekki saman úr turnum tveimur

Og gagnkvæm óeining, óvild eða jafnvel hatur á milli sósíalista og Lýðflokksins, eins og stóri hægri flokkurinn á Spáni heitir, hefur ekki bætt úr skák. Flokkunum, sem eru sannarlega turnarnir tveir í spænskum stjórnmálum, er fyrirmunað að starfa saman. Þeir hafa því skipst á að leiða ríkisstjórnir síðustu árin, oftast minnihlutastjórnir, með stuðningi lítilla þjóðernissinnaðra flokka frá Baskalandi og Katalóníu. Frá aldamótum hefur lögum um menntamál verið breytt ekki sjaldnar en þrisvar sinnum, allt eftir því hverjir sitja í stjórn, og það hefur aukið á ringulreiðina.
Og í sumar, þegar neyðin var meiri en oftast áður, gat þingið ekki einu sinni komið sér saman um neyðarpakka til þess að koma menntakerfinu til aðstoðar.

Engin aðstoð til skólanna 

Skipuð var þingnefnd í fulltrúadeildinni til þess að ná sátt um hvernig best væri að koma skólakerfinu til hjálpar. Eftir tveggja mánaða yfirlegu og fundahöld, komst nefndin að sameiginlegri niðurstöðu sem var lögð fyrir þingið. Þingið gerði sér lítið fyrir og felldi tillöguna með 175 atkvæðum gegn 172 og skólarnir fengu enga aðstoð.
Það er því kannski ekki nema von að leiðarahöfundur stærsta dagblaðs landsins, El País, hafi um síðustu mánaðamót beint spjótum sínum að stjórnmálamönnum landsins, bent þeim á að þvergirðingsháttur þeirra og vanhæfi hefði haft alvarlegar afleiðingar fyrir spænskt samfélag á síðustu árum. Nú riðuðu hins vegar flestar meginstoðir samfélagsins til falls; menntakerfið, heilbrigðiskerfið, efnahagslífið og félagslega kerfið. Það væri því skylda leiðtoga stóru flokkanna að taka höndum saman á þessum örlagatímum. Það er hins vegar ekkert sem bendir til þess að leiðarahöfundi eða lunga spænsku þjóðarinnar verði að þessari ósk sinni.