Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Sérfræðingur um þjóðflokka drepinn af frumbyggjum

11.09.2020 - 07:03
Mynd með færslu
 Mynd: Priscila Rosa - Wikimedia Commons
Brasilískur sérfræðingur um þjóðir í Amazon-frumskóginum var drepinn á miðvikudag af þjóð sem yfirvöld hafa ekki komst í samband við. Rieli Franciscato var skotinn með ör í bringuna þegar hann ætlaði í lögreglufylgd að reyna að ná sambandi við þjóðina fyrir hönd ríkisstofnunarinnar Funai, sem sér um málefni frumbyggja í Brasilíu. Franciscato helgaði starfi sínu hjá Funai við að vernda einangraða þjóðflokka. 

Breska ríkisútvarpið hefur eftir vitnum að ráðist hafi verið að hópnum þegar hann var kominn nærri fólkinu sem kennt er við Cautario ána. Blaðaljósmyndarinn Gabriel Uchida segir þjóðina alla jafna friðsama, en fimm manna hersveit hafi tekið á móti þeim. 

Frumbyggjaleiðtogar í Brasilíu segja þjóðir í Amazon ítrekað hafa varist innrásum ólöglegrar námuvinnslu, bænda og skógarhöggsmanna á landsvæði þeirra. Þær hafi ágerst eftir að Jair Bolsonaro tók við embætti forseta í fyrra. Kaninde þjóðflokka- og náttúruverndarsamtökin, sem Franciscato tók þátt í að stofna, segja þjóðflokkinn við Cautario ána ekki hafa náð að greina hvort vinir eða óvinir væru á ferð.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV