Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ríkislögreglustjóri vill að fleiri leiti til neyðarlínu

Mynd með færslu
 Mynd: Advania - Skjáskot
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, kynnti á ráðstefnu Advania í dag nýja þolendagátt á heimasíðu lögreglu fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Gáttin gerir þeim sem hafa kært kynferðisofbeldi að fylgjast með biðtíma málsins í kerfi lögreglu. Vinna við gáttina hefur staðið yfir síðustu tvö ár og verður hún kynnt formlega síðar þegar hún er fullbúin.

Fjarráðstefnan hófst í Hörpu í gær og henni lýkur í dag.

Þolendagáttinn gerir það að verkum að mínar síður verða inni í lögreglukerfinu, og hægt er að sjá hvar mál þolenda er statt og meðaltíma meðferðar á málum sem eru af svipuðum toga. Ekki verður hægt að sjá hve langan tíma tekur að ljúka málum. 

„Ég held að þetta sé bylting og að kynferðisbrotin komi fyrst og síðan verði þetta bara þannig að allir fái mínar síður hjá lögreglunni, alveg eins og þeir fá hjá skattinum og heilsugæslunni, bönkunum og svo framvegis. Ég held að þetta sé mikilvægt skref til þess að geta þjónustað notendur okkar betur,“ sagði Sigríður Björk.

Nýtt skipurit innan lögreglu kynnt í dag

Þá var nýtt skipurit innan lögreglunnar kynnt í dag sem er mun flatara en fyrra skipurit með minni stigskiptingu þar sem aukin áhersla er lögð á stafræna þætti. Störf yfirlögregluþjóns almannavarna ríkislögreglustjóra, yfirlögregluþjóns landamærasviðs ríkislögreglustjóra og yfirlögregluþjóns alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra voru auglýst laus til umsóknar í dag.

Sigríður kynnti einnig nýja 112 gátt, svokallaða, sem ekki hefur verið formlega samþykkt af ríkisstjórn en er hluti af mótvægisaðgerðum ríkisins vegna kórónuveirufaraldursins. Eygló Harðardóttur, fyrrverandi velferðarráðherra og núverandi kokkanema, og Sigríði Björk var falið að ráðstafa fé í mótvægisaðgerð við auknu heimilisofbeldi af völdum faraldursins.

Sigríður Björk sagði allar spár hafa gengið eftir um aukningu heimilisofbeldis vegna faraldursins og að tilkynningum um heimilisofbeldi til barnaverndar og lögreglu hafi aukist.

Vilja lækka þröskuldinn á að fólk leiti til neyðarlínu

Sigríður Björk segir 112 gáttina vera gagnvirkan vef þar sem á að vera hægt að finna allar upplýsingar á einum stað varðandi neyð og aðstoð og eiga spjall sem hentar notendum.

„Þarna erum við líka að horfa á unga fólkið sem hringir ekki endilega í 112 til að spyrja spurninga og eldri kynslóðina sem hringir kannski ekki í 112 nema það sé eitthvað mjög, mjög, mjög mikið að,“ sagði Sigríður Björk. Hún segir gáttina eiga að lækka þröskuldinn á að fólk leiti til lögreglunnar. Öll aðstoð sem sé í boði víða í samfélaginu hjá alls kyns stofnunum og fyrirtækjum eigi að vera sýnileg á einum stað, í gáttinni.

Dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra standa fyrir verkefninu. Það hefur ekki verið samþykkt formlega enn.