Óbreytt ástand á landamærunum til 6. október

Mynd: RÚV / Skjáskot
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur fallist á tillögur sóttvarnalæknis um að framlengja ráðstafanir á landamærunum vegna kórónuveirufaraldursins til 6. október. Áfram verður því skimað fyrir veirunni við komuna til landsins, fólk þarf síðan að fara í fimm daga sóttkví og svo aftur í sýnatöku.

Þá verða einnig gerðar breytingar á sóttkví sem felast í því að stytta hana úr 14 dögum í 7 daga með sýnatöku á síðasta degi. „Þetta hjálpar bæði fólki og fyrirtækjum og aðstoðar við láta lífið ganga sinn vanagang.“

Svandís segir að sóttvarnalæknir hafi í minnisblaði sínu um aðgerðir á landamærunum bent á að faraldurinn væri í vexti í löndunum í kringum okkur. Eftir sem áður væri breiður hópur ráðuneytisstjóra að fara yfir stöðuna og fjármálaráðherra væri að gera hagræna greiningu á þessum ráðstöfunum.  Hún sagði þessar sóttvarnaráðstafanir alltaf hafa notið stuðnings hjá ríkisstjórninni og það hefði ekkert breyst.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundi í gær að það væri óráðlagt að slaka á aðgerðum á landamærunum á sama tíma og verið væri að slaka á samkomutakmörkunum innanlands. Við það gæti skapast sú hætta að faraldurinn færi aftur af stað. Hann benti jafnframt á að virkum smitum hefði fjölgað á landamærunum þrátt fyrir að færri farþegar væru að koma ti landsins.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi