Microsoft kom í veg fyrir árásir á Trump og Biden

epa07942259 (FILE) - Microsoft booth at Japan CEATEC in Makuhari city, east of Tokyo, 30 September, 2008 (reissued 23 October 2019). Microsoft is to release their fiscal year 2020 first quarter earnings on 23 October 2019.  EPA-EFE/EVERETT KENNEDY BROWN
 Mynd: EPA
Hugbúnaðarfyrirtækið Microsoft greindi frá því í gær að það hafi komið í veg fyrir netárásir gegn báðum forsetaframboðum í Bandaríkjunum frá Kína, Rússlandi og Íran. 

Microsoft sagði árásirnar hafa beinst gegn starfsmönnum kosningaframboða þeirra Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Demókratans Joe Biden. Varaformaður Microsoft, Tom Burt, sagði augljóst að erlendir tölvuþrjótar ætli að herja að öllu afli á forsetakosningarnar í nóvember eins og búist var við. 

Mörg skotmörk

Að sögn Burt hefur rússneski tölvuþrjótahópurinn Strontium beint árásum sínum að yfir 200 fyrirtækjum og stofnunum. Kínverski hópurinn Zirconium einblíndi á þekkta einstaklinga sem tengjast kosningunum, þar á meðal fólki tengdu framboði Biden. Phosphorus frá Íran beindi sjónum sínum að einkasíðum fólks tengdu framboði Trumps. Microsoft kom í veg fyrir meirihluta árásanna, eða lét hlutaðeigandi vita af þeim. 

Twitter lokar á rangar upplýsingar

Twitter boðaði í gær að samfélagsmiðillinn ætli að gera sitt til að koma í veg fyrir að röngum eða misvísandi upplýsingum verið dreift á miðlinum fyrir kosningar. Frá og með 17. september taka nýjar reglur gildi um það. Eins verða ósannar upplýsingar sem geta grafið undan kosningunum bannaðar, til að mynda ásakanir um kosningasvindl, að átt sé við kjörseðla, talningu atkvæða eða úrslit kosninganna. Vaxandi áhyggjur eru af því hvenær hægt verður að tilkynna endanleg úrslit kosninganna þar sem búist er við holskeflu póstatkvæða. Því er blátt bann við því að lýsa yfir kosningasigri áður en þau hafa verið staðfest af kjörstjórn.

Stjórnmálaskýrendur vestanhafs telja margir hverjir að Trump eigi eftir að hafna úrslitunum eða neita að yfirgefa embættið ef í ljós kemur að hann tapar. Trump hefur ítrekað sakað Demókrata um að vera að undirbúa umfangsmikið kosningasvindl og neitað að segja hvort hann eigi eftir að viðurkenna úrslitin.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi