Leggja til harðar aðgerðir í Ísrael

11.09.2020 - 09:31
Ultra-Orthodox Jews wait to cross a closed road to go to their homes as they wear protective face masks to help curb the spread of the coronavirus in Ashdod, Israel, Thursday, July 2, 2020. Coronavirus restrictions have gone into effect in Israel after the number of new cases there hit a record high the previous day, while the West Bank prepares to go into lockdown. (AP Photo/Ariel Schalit)
 Mynd: AP
COVID-ráð ísraelsku ríkisstjórnarinnar leggur til að landinu verði lokað í hálfan mánuð til að draga úr hraðri útbreiðslu kórónuveirunnar. Yfir fjögur þúsund greindust smitaðir á einum sólarhring fyrr í þessari viku.

COVID-ráðið sat á rökstólum hátt í sex klukkustundir í gær. Eftir að hafa borið saman bækur sínar við sérfræðinga á heilbrigðissviði varð niðurstaðan sú að mæla með því að útgöngubanni verði komið á frá næsta föstudegi, þegar Rosh Hashana, nýárshátíð gyðinga, hefst. Ísraelska ríkisstjórnin kemur saman á sunnudag og greiðir atkvæði um tillöguna. Að sögn ísraelskra fjölmiðla er lagt til að fólk haldi sig heima frá 18. september til 1. október og fari ekki lengra en fimm hundruð metra frá heimilum sínum. Öllum fyrirtækjum verði lokað, þar á meðal verslunum og veitingahúsum, að frátöldum matvöru- og lyfjaverslunum. Einnig leggur ráðið til að skólum verði lokað í að minnsta kosti fjórtán daga. Fólki verði leyft að koma saman til bænahalds, þó ekki fleiri en tíu innan dyra og tuttugu úti.

Kórónuveiran hefur breiðst hratt út í Ísrael að undanförnu. Sólarhringinn áður en COVID-ráðið kom saman greindust yfir fjögur þúsund smit í landinu. Þau hafa ekki verið fleiri á einum sólarhring hingað til.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi