Klukkutíma akstur í næstu búð eftir að Hólabúð lokar

11.09.2020 - 07:50
Drónamyndir af Reykhólum.
 Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Hólabúð í Reykhólahreppi verður lokað um næstu mánaðamót eftir fimm ára rekstur. Veitingastaðnum 380 restaurant sem rekinn er af sömu aðilum verður einnig lokað. Þó að sumarið hafi gengið ágætlega eru ekki forsendur til að hafa opið í vetur, segir eigandinn.

Greint er frá þessu á vef Bæjarins besta. Ef enginn fæst til að sjá um reksturinn og versluninni verður lokað lengist förin eftir nauðsynjavörum fyrir íbúa Reykhólahrepps. Næstu búðir eru á Hólmavík til norðurs og í Búðardal til suðurs. Um klukkutíma akstur er hvora leið í báðar þessar verslanir. 

Íbúum hefur fækkað í Reykhólahreppi undanfarið og að sögn verslunareigandans breytir það forsendum fyrir vetraropnun. Sumarið hafi gengið ágætlega en nú sé nauðsynlegt að loka. Reynt verði að halda úti verslun með nauðsynjavörum til mánaðamóta þegar skellt verður í lás.

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitastjóri í Reykhólahreppi, segir að lokunin hafi ekki komið á óvart. Þótt ferðamannastraumur hafi verið meiri en búist var við sé óvissan mikil fyrir veturinn og því hafi eigendur verslunarinnar ákveðið að loka. Hún vonar þó að það vari ekki lengi og að fólk flytji ekki úr byggðarlaginu.

„Ég ætla að vona ekki og ég ætla að horfa til sögunnar. Við erum ekki að lenda í þessu í fyrsta skipti. Það hafa verið rekstraraðilar að búðinni samfleytt seinustu mörg ár, en það hafa komið 2-3 mánuðir sem hún hefur legið niðri. Svo ég ætla að vera bjartsýn á að við fáum einhvern til að koma og reka verslunina.“ segir Ingibjörg.

Fréttin hefur verið uppfærð.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi