Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Íslensk erfðalög óljós þegar kemur að stafrænu lífi

Mynd: EPA / RÚV
Vigdís Eva Líndal, sviðsstjóri hjá Persónuvernd, segir íslensk erfðalög óljós þegar kemur að stafrænu lífi fólks. Hún ræddi dóm sem féll nýlega í Þýskalandi í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun en efsta dómsstig Þýskalands heimilaði foreldrum stúlku að fá fullan aðgang að Facebook aðgangi hennar. Stúlkan lést árið 2012 eftir að hafa lent undir lest. Foreldrarnir fóru fram á þetta til að komast að því hvort um sjálfsvíg hafi verið að ræða.

Afstaða Facebook var sú að ekki ætti að heimila að veita gögnin til að vernda rétt þeirra sem stúlkan hafði átt samskipti við, út frá persónuverndarsjónarmiðum. Vigdís nefnir nokkur atriði sem áhugaverð í þessu máli, friðhelgi einkalífs stúlkunnar, friðhelgi annarra og afstöðu Facebook í málinu.

„Í þessu máli ákveða þeir að setja niður fótinn meðan þeir hafa kannski verið óhræddir við að hleypa fyrirtækjum og hverjum svo sem sem vill í okkar gögn. Þannig að það er mjög áhugavert að þeir taki þessa afstöðu í þessu máli,“ sagði Vigdís Eva. 

„Síðan er líka þetta sem þú nefnir, hvað verður um gögnin okkar þegar við deyjum? Á íslandi erum við með erfðalög og í þeim er talað um hvernig eigi að fara með hluti eftir andlát, það er ekkert talað um hvaða hlutir það eru. Erfðalögin okkar eru frá 1962.“

Almennt séu lausafjármunir taldir til dánarbús en ekki sé ljóst hvort stafrænt líf fólks flokkist sem slíkt. 

Áskorun sem samfélagið stendur frammi fyrir

„Við erum ekki alveg búin að sjá fyrir hvernig þessi mál þróast. Á einhverjum tímapunkti muni láta reyna á þetta hér,“ segir Vigdís.

Hún segir að þetta hafi sést óbeint hér í málum þegar andlát verður hjá starfsmanni á vinnustað. Þá eru ýmis gögn sem liggja á vinnustaðnum varðandi hinn látna. „Mega erfingjarnir koma og mega þeir jafnvel fara í gegnum tölvupóstinn sem vinnustaðurinn á?“ Vigdís segir að það hvernig við förum með okkar stafræna líf sé áskorun sem samfélagið standi nú frammi fyrir.