Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hver hinna ákærðu í máli George Floyds ásakar hina

Mynd með færslu
 Mynd: AP
Derek Chauvin, lögreglumaðurinn sem lagði hné sitt að hálsi Floyds í níu mínútur, fullyrðir fyrir rétti að ofskammtur af fentanýli, mjög sterku verkjalyfi, hafi orðið honum að fjörtjóni. Hann sakar tvo hinna lögreglumannana um að hafa ekki metið ástand Floyds réttilega.

Saksóknarar hafna verkjalyfskenningunni algerlega og segja hana vera fáránlega. Undirbúningur réttarhalda yfir lögreglumönnunum fjórum Chauvin, Thomas Lane, Alexander Kueng og Tou Thao hófst í dag í Minneapolis.

Til stendur að rétta sérstaklega yfir hverjum og einum þeirra sérstaklega en málsskjöl sýna að hver kennir hinum um hvernig fór. Þess verður krafist að réttað verði yfir öllum fjórum mönnunum saman því þeir hafi unnið saman á vettvangi atburðarins.

Ben Crump lögmaður fjölskyldu Floyds segir sömuleiðis að hinir ákærðu munu í málsvörn sinni reyna að sverta minningu hans. Mannfjöldi safnaðist saman fyrir utan dómshúsið í miðborg Minneapolis, kyrjaði nafn Floyds og hélt uppi spjöldum með áletruninni Black Lives Matter.

Helsti vandinn í aðdraganda réttarhaldanna, sem hefjast eiga í mars 2021, er að velja kviðdóm. Málið hefur valdið miklum óróa um gjörvöll Bandaríkin og því geti orðið vandasamt að finna fólk til starfans sem ekki hefur þegar myndað sér skoðun á því.