Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Göngugötur í miðborginni til 1. maí

11.09.2020 - 11:17
skólavörðustígur, göngugata, umferðarskilti,
 Mynd: RÚV/Freyr Arnarson
Meirihluti skipulags- og umhverfisráðs Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum í vikunni að leggja til við borgarráð að götur í miðborginni sem hafa verið göngugötur verði það áfram, eða til 1. maí. Laugavegur milli Klapparstígs og Frakkastígs og Vatnsstígur milli Laugavegs og Hverfisgötu verða því áfram aðeins ætlaðar gangandi vegfarendum. Tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins en fulltrúi Miðflokksins sagði þetta vera „ískaldar kveðjur frá meirihlutanum.“

Í bréfi samgöngustjóra og borgarhönnunar kemur fram að það hafi gefist að göturnar séu aðeins ætlaðar gangandi vegfarendum og mikið líf hafi skapast á svæðinu. Í undirbúningi sé deiliskipulag um varanlega göngugötu. Tillagan hafi verið borin undir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu sem hafi samþykkt hana.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sagði þessa ákvörðun koma eins og þrumu úr heiðskíru lofti. Aðeins væri 21 dagur þar til átti að opna fyrir bílaumferð á ný. „Það er búið að skella Laugaveginum í lás til framtíðar án nokkurs samráðs við rekstraraðila sem þó eru að berjast í bökkum að halda uppi þjónustu svo að miðbærinn sé ekki steindauður.“ Þetta væru ískaldar kveðjur frá meirihlutanum. 

Kolbrún Baldursdóttir frá Flokki fólksins sagði þetta afar óskynsamlegt. „Bærinn er líflaus nú og með því að opna aftur göturnar eins og gert var ráð fyrir glytti í smá von um að fleiri myndu vilja heimsækja hann.“ Þetta myndi fara endanlega með marga sem hafi séð fyrir sér að götur verði opnaðar bílaumferð í haust. „Nú er sá draumur úti og þeir munu endanlega loka ef þetta gerist. Næstu mánuði munu margir blæða út.“

Tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, þær Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir, sátu hjá við afgreiðslu málsins en Ólafur Kr. Guðmundsson greiddi atkvæði gegn tillögunni. Þau lögðu ekki fram neinar bókanir um málið.

Meirihlutinn sagði kannanir sýna að meirihluti íbúa væri jákvæður gagnvart göngugötum og jákvæðust væru þau sem fari um göngugöturnar að minnsta kosti vikulega.