Fyrst í gegnum glerþak Wall Street

11.09.2020 - 06:27
In this undated photo provided by Citigroup, head of Citi’s global consumer banking division Jane Fraser poses for a portrait. Citigroup announced Thursday, Sept. 10, 2020, that Fraser would succeed Michael Corbat as the bank’s next chief executive, making Fraser the first woman to ever lead a Wall Street bank. (Julian Restrepo/Citigroup via AP)
 Mynd: AP
Febrúar árið 2021 markar tímamót í sögu stærstu fjármálafyrirtækja á bandaríska verðbréfamarkaðnum. Þá verður Jane Fraser yfirmaður fjárfestingabankans Citigroup, og þar með fyrsta konan sem stýrir einu af stærstu fjármálafyrirtækjunum á Bandaríkjamarkaði. Fyrirtækið tilkynnti þetta í gærkvöld, þar sem núverandi stjórnandi, Michael Corbat, sagði jafnframt að hann ætli að setjast í helgan stein.

Síðan í fyrra hefur hún verið yfir viðskiptabankadeild Citigroup á heimsvísu. Fram að því hafði hún gengt stöðum innan bankans í Mið- og Suður-Ameríku og í fjárfestingadeild bankans. Hún tekur þegar í stað sæti í stjórn bankans segir í tilkynningunni.

Sjálf segir hún ákvörðun stjórnarinnar mikinn heiður og hún sé þakklát Corbat fyrir leiðtogahæfni hans og stuðning. Staða bankans sé sterk og hún geri hvað hún geti til þess að gera fjárfesta stolta af fyrirtækinu.

Mikið var gert úr tíðindunum á samfélagsmiðlum. Meðal þeirra var Al Green, þingmaður Demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, sem sagði ráðningu Fraser sögulega stund fyrir konur. Löng leið sé þó framundan í jafnréttismálum í Bandaríkjunum. Green var meðal þingmanna sem þrýsti að Corbat og sex öðrum stjórnendum stærstu fyrirtækjanna á Wall Street í apríl í fyrra. Þar spurði hann alla hvítu karlana hvort þeir gætu séð fyrir sér að kona eða einstaklingur með annan húðlit en þeir tæki við stöðu þeirra. Enginn þeirra rétti upp hönd.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi