Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Enginn af bönkunum þremur vildi opna í Hveragerði

11.09.2020 - 14:01
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin - Skjáskot
Bæjarstjórn Hveragerðis fór bónleið til búðar þegar hún óskaði eftir tilboðum í bankaviðskipti og upplýsingum um hvaða þjónustu bankarnir væru tilbúnir að veita íbúum bæjarins. Arion banki hreppti viðskiptin við bæjarfélagið þrátt fyrir að bæjaryfirvöld hefðu lýst því yfir að þau myndu endurskoða samskipti sín við bankann eftir að hann lokaði útibúi sínu í sumar.

Bæjarstjórn sagði í bókun á fundi sínum í gær að ákvörðun bankanna væru mikil vonbrigði.

Í Hveragerði séu 2.750 íbúar auk mikils fjölda innlendra jafnt sem erlendra ferðamanna. „Það er sérkennilegt að sjá að allir bankarnir telja nauðsynlegt að hafa útibú, svo til hlið við hlið, á Selfossi á sama tíma og íbúum Hveragerðisbæjar er sagt að engin nauðsyn sé að hér sé útibú.“

Bankarnir ættu að dreifa starfsemi sinni jafnar á þéttbýliskjarna svæðisins en nú er gert. „ Hinn stafræni heimur virkar ekki bara á einn veg hann getur hæglega virkað til dreifingar þjónustu vítt og breitt um landsbyggðina standi raunverulegur hugur til þess.“

Bæjaryfirvöld ákváðu að endingu að ganga til viðskipta við Arion banka. Bæði vegna þess að bærinn bauð hagstæðustu kjörin en líka vegna hraðbanka sem staðsettur er í bænum.  Þá ætla starfsmenn bankans að sinna kennslu og þjónustu við íbúa á Dvalarheimilinu Ási í notkun á stafrænni þjónustu.

Arion banki ákvað að loka útibúi sínu í Hveragerði í sumar og vakti sú ákvörðun hörð viðbrögð.  Bæjaryfirvöld tilkynntu að þau myndu endurskoða viðskipti sín við bankann ef Arion banki hætti ekki við. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV