Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Eiga ekki séns í góða díla hjá heildsölum“

11.09.2020 - 14:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Allt að 140% verðmunur er á milli matvöruverslana á landsbyggðinni. Kaupmaður á Grenivík segir ástæðurnar fyrir því geta verið margar. Litlar verslanir fái vörur hjá heildsölum oft á hærra verði en á stórmörkuðum.

Mikill verðmunur er á matvörum milli verslana á landsbyggðinni. Verðlagseftirlit ASÍ kannaði á þriðjudaginn verð í minni matvöruverslunum og í um helmingi tilfella var yfir áttatíu prósenta munur á hæsta og lægsta verði. Á 56 vörutegundum af þeim 103 sem kannaðar voru, var 60-140 prósenta munur á hæsta og lægsta verði og yfir 140 prósenta verðmunur á tólf vörutegundum. Mikill munur var á hæsta og lægsta verði í öllum vöruflokkum. Hér má sjá niðurstöður könnunarinnar. 

Fimmtán verslanir tóku þátt í könnununni, allt frá litlum einkareknum verslunum til búða sem eru hluti af stærri keðjum. Þar á meðal eru Kauptún á Vopnafirði, Kjarval á Hellu og Jónsabúð á Grenivík.

Hærra verð hjá heildsölum heldur en stórmörkuðum

Jón Stefán Ingólfsson hefur rekið Jónsabúð í um 25 ár og því enginn nýgræðingur í bransanum. Hann segir 140% dálítið mikið en ástæðurnar geti verið margar. Þetta séu litlar einkareknar búðir í litlum sveitarfélögum ásamt búðum sem séu hluti af stærri keðjum sem eigi auðveldara með að bjóða lægra verð en einkareknu búðirnar. 

Hann telur ekki líklegt að það sé verið að okra á fólki enda séu litlu verslanirnar yfirleitt að berjast við að halda sér réttum megin við núllið. Verð ráðist af innkaupsverði og litlar verslanir eigi engan séns í að gera góða díla hjá heildsölum og séu oftar en ekki að kaupa vöruna inn á hærra verði en ef hún væri keypt á stórmörkuðum. Hann telur framtíð smávöruverslana ekki góða enda fari þeim fækkandi. Fólki hafi þó fundist gott að hafa verslun í heimabyggð þegar kórónuveirufaraldurinn var í hæstu hæðum.