Dæmdur í 133 ára fangelsi

Mynd með færslu
 Mynd: Innflytjenda- og tollaeftirlit B
Dómstóll á Spáni dæmdi í dag fyrrverandi ofursta í her El Salvador, Inocente Orlando Montano Morales að nafni, í 133 ára fangelsi fyrir að hafa fyrirskipað morð á fimm jesúítaprestum síðla árs 1989. Herforinginn fyrrverandi var einnig ákærður fyrir þrjú morð til viðbótar, en var ekki sakfelldur vegna þeirra.

Prestarnir voru að reyna að miðla málum í borgarastríði stjórnarhersins í El Salvador og skæruliða Þjóðfrelsisfylkingarinnar FMLN þegar þeir voru skotnir til bana. Ofurstinn fyrrverandi er 77 ára. Hann var framseldur frá Bandaríkjunum árið 2017. Þar hafði hann setið hátt í tvö ár í fangelsi fyrir að hafa komið til landsins á fölskum forsendum. Hann hefur setið í varðhaldi á Spáni frá því að hann var fluttur þangað.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi