„Búið að vera fullt í nokkur ár“

Mynd: RÚV / Skjáskot

„Búið að vera fullt í nokkur ár“

11.09.2020 - 18:34
Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir í Tennishöllinni í Kópavogi undanfarin misseri. Rými hallarinnar hefur verið tvöfaldað en samt annar höllin varla eftirspurn.

Aðstaða Tennishallarinnar í Kópavogi hefur tekið stakkaskiptum undanfarið ár. Innanhústennisvöllum hefur verið fjölgað um tvo og einnig hafa bæst við tveir padel-vellir.

„Þetta breytir bara mjög miklu fyrir íþróttina, það komast fleiri að. Við erum í raun og veru nú þegar búin að stækka íþróttina. Þetta er orðið ágætlega bókað. Þetta gerir það líka að verkum að æfingar hjá börnum og unglingum geta verið betri, plássið er meira og færri á hverjum velli, og æfingarnar verða meira „professional“,“ segir Jónas Páll Björnsson, framkvæmdastjóri Tennishallarinnar. 

Aðsókn í tennis hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og var svo komið fyrir breytingar að vísa þurfti áhugasömum frá. Jónas hefur væntingar til þess að nú sé hægt að opna íþróttina fyrir fleirum.

„Það var bara búið að vera fullt hjá okkur í nokkur ár, erfitt fyrir fólk að komast að. Ég var vanur að segja það reyndar að við værum bara með þrjá velli en nú er ég farin að segja að við séum „bara“ með fimm velli. Það virðist vera svolítið eftirspurn eftir þessu. Ef maður hugsar um þetta sem hreyfingu að þá er þetta svo skemmtilegt. Það er aðalatriðið þegar maður er að velja sér hreyfingu er að velja sér eitthvað skemmtilegt, því þá endast þeir,“ segir Jónas.