Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Bruninn á Bræðraborgarstíg kominn inn á borð saksóknara

Húsarústir eftir brunan á Bræðraborgarstíg
 Mynd: Sigríður Hagalín Björnsdótt
Rannsókn lögreglu á eldsvoða í húsi við Bræðraborgarstíg 1 25. júní síðastliðinn er nú lokið og málið komið á borð héraðssaksóknara. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í samtali við fréttastofu.

„Við erum núna að skoða málið, það kom inn á okkar borð fyrr í dag,“ segir Kolbrún. „Nú er verið að meta rannsóknargögn.“

Þrír létust í brunanum og þrír voru handteknir vegna brunans, þar af tveir á vettvangi. Tveimur þeirra var fljótlega sleppt. Sá þriðji, karlmaður á sjötugsaldri sem bjó í húsinu, var handtekinn við sendiráð Rússalands í Garðastræti skömmu eftir að eldurinn kom upp. Hann var úrskurðaður í sjö daga gæsluvarðhald daginn eftir brunann, hann  hefur verið í varðhaldi síðan þá og það ítrekað framlengt á þeim forsendum að óforsvaranlegt væri að maðurinn gengi laus.

Gæsluvarðhaldið var síðast framlengt á þriðjudaginn.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði frá 15. júlí, þegar varðhaldið var fyrst framlengt, kom fram að maðurinn væri grunaður um brot gegn 211. grein almennra hegningarlaga. Hún kveður á um að sá sem sviptir annan mann lífi skuli sæta allt að ævilöngu fangelsi, og ekki skemur en í fimm ár og fram hefur komið að málið sé rannsakað sem manndráp af ásetningi.

Spurð hvort líklegt sé að maðurinn verði ákærður fyrir það sakarefni segist Kolbrún ekki geta svarað því. „Það er augljóst að það var mat lögreglu að hann hefði framið alvarlegt brot, þar sem hann hefur setið svona lengi í gæsluvarðhaldi,“ segir Kolbrún.