Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Brot á grundvallarmannréttindum að vísa börnum úr landi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Það er klárt mál að verið er að brjóta grundvallarmannréttindi á börnum með því að vísa þeim úr landi,“ segir Friðþjófur Helgi Karlsson skólastjóri Háaleitisskóla.

Friðþjófur lét þessi orð falla í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 en tvö eldri barna egypsku hjónanna Dooa og Ibrahim stunda nám við skólann. Til stendur að flytja fjölskylduna úr landi á miðvikudaginn í næstu viku. 

Skólastjórinn segir þau hafa fest hér rætur, þau eigi vini og hafi lagt mikla rækt við að læra íslensku. Hann segir að sér finnist sárt að sjá þau hrifin á brott, að hann geti ekki hugsað þá hugsun til enda verði þeim vísað úr landi á miðvikudaginn.

Háaleitisskóli stefni að því að verða réttindaskóli UNICEF þar sem réttindi barna séu sérstaklega tryggð og ekki síst barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Friðþjófur Helgi Karlsson skólastjóri segir erfitt að sitja hljóður hjá þegar brottrekstur barna sem hafi fest hér rætur sé í þann mund að eiga sér stað.