Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brexitbomba bresku stjórnarinnar

11.09.2020 - 16:35
Mynd: EPA-EFE / UK PARLIAMENT
Boris Johnson forsætisráðherra sló sér upp á að hespa af útgöngusamningi við Evrópusambandið. Nú vill hann brjóta samninginn með því að breyta honum með nýjum lögum.

Sjaldgæflega skýrt svar

Það er orðin viðtekin venja að stjórnmálamenn veiti loðin svör, líka við skýrum spurningum. Það kom því á óvart á þriðjudaginn þegar Brandon Lewis Norður-Írlandsráðherra svaraði stuttri og einfaldri fyrirspurn flokksbróður síns Ben Neill með stuttu og einföldu svari.

,,Já, þetta brýtur alþjóðalög á mjög sértækan og takmarkaðan hátt,“ sagði ráðherrann. Neill, sem er sjálfur lögfræðingur, gapti. Sama gerðu fleiri. Það gerist ekki á hverjum degi að ríkisstjórn viðurkenni að hún sé meðvitað að brjóta lög. Ráðherrann sagði reyndar fordæmi fyrir svona lögbroti. Gagnrýnendur frumvarpsins, og þeir eru ófáir, telja fordæmið alls enga hliðstæðu.

Forsagan: samningurinn sem May féll á

En um hvað snýst þá frumvarpið, sem ráðherrann viðurkennir að brjóti lög? Í útgöngusamningi sínum við Evrópusambandið reyndi Theresa May fyrrum forsætisráðherra að tryggja írska friðarsamninginn frá 1998, tryggja opin landamæri Norður-Írlands og Írlands með þrautavarasamningi, svokölluðu ,,back-stop,“ ef ekki tækist að gera viðskiptasamning í framhaldinu. Breska þingið hafnaði samningi May.

Samningurinn sem Johnson hafði af

Boris Johnson samdi við ESB um annað fyrirkomulag þannig að Norður-Írland fylgdi öðrum reglum en afgangurinn af Bretlandi, það er ESB-reglum. Í raun landamæri um hafið milli Norður-Írlands og Bretlandseyja. Fyrirkomulag, sem Theresa May hafði áður sagt að enginn breskur forsætisráðherra gæti nokkru sinni samþykkt af því þar með væri ríkið klofið.

Skrautfjöður sem forsætisráðherra vill helst gleyma

Samningurinn var ein skrautfjöðrin í hatti Johnson fyrir desember-kosningarnar sem hann vann. Í heimsókn á Norður-Írlandi nú í ágúst sagði forsætisráðherra að frekar dytti hann niður dauður en búa til landamæri í hafinu milli Norður-Írlands og Bretlandseyja, sem hljómaði nokkuð undarlega í ljósi samningsins sem hann gerði. Um helgina fréttist að í bígerð væri nýtt frumvarp til að tryggja heildstæðni innri markaðar landshlutanna fjögurra: Englands, Skotlands, Wales og Norður-Írlands. Forsætisráðherra og fleiri sögðu þetta aðeins smá afgreiðsluatriði, snerti ekki útgöngusamninginn. Annað kom á daginn, þegar Norður-Írlandsráðherrann var spurður – og gaf hreinskilið svar: jú, frumvarpið bryti alþjóðalög.

Theresa May: hvernig er hægt að treysta stjórn sem brýtur gerða samninga?

Theresa May forveri Johnsons beitir sér ekki mikið á þingi en þegar hún gerir það er tekið eftir  því. Spurning hennar í þinginu í vikunni er málið í hnotskurn: Hvernig hyggst ríkisstjórnin nú sannfæra alþjóðlega samningsaðila í framtíðinni um að treysta megi stjórninni til að standa við lagalegar skuldbindingar samninga, sem hún undirritar.

Skýringar ríkisstjórnarinnar þykja þunnar

Stjórnin skýrir frumvarpið með ýmsum hætti. Allt frá því að þetta sé bara minniháttar lagatækni yfir í að í fyrra hafi gefist of stuttur tími til samninga og þá heldur ekki legið fyrir hver áhrifin yrðu. Ekkert af þessu þykir standast skoðun.

Kór mótmæla, ekki síst í stjórnarflokknum

Kór mótmæla og vandlætingar hefur glumið síðan frumvarpið var lagt fram á miðvikudaginn, ekki síst í þingflokki forsætisráðherra. Yfirlögfræðingur í fjármálaráðuneytinu sagði af sér frekar en að vera kenndur við frumvarpið. Tveir fyrrum leiðtogar Íhaldsflokksins, þeir John Major fyrrum forsætisráðherra og Brexit-sinninn Michael Howard taka í sama streng og May. Í viðbót er spurt hvernig breska stjórnin geti prédikað vald laganna við lönd eins og Kína og Rússland þegar hún virði alþjóðasamninga að vettugi.

Sterkur þingmeirihluti kannski ekki jafn sterkur og virðist

Michel Gove undirráðherra í forsætisráðuneytinu er í samstarfsnefnd með ESB um framkvæmd útgöngusamningsins. Hann segir frumvarpið nauðsyn og verði ekki dregið til baka. Það heyrist þó að verið sé leita leiða til að breyta því. Íhaldsflokkurinn hefur 80 þingsæta meirihluta sem gæti gufað merkilega hratt upp ef gagnrýnin grípur um sig þar.

ESB hótar lagalegum aðgerðum, ekki samningsslitum

Og hver eru þá viðbrögð ESB, sem er bæði aðili að brotna samningum og er að semja við Breta um framtíðarviðskipti? Þaðan heyrast engar hótanir um að slíta viðræðunum, ESB mun tæplega hafa frumkvæði að samningsslitum. En ESB hefur lýst því yfir að verði frumvarpið að lögum muni ESB fara lagaleiðina til að leita réttar síns vegna samningsbrots, hvernig sem það verður gert.

Vilja Bretar í alvörunni semja?

En af hverju að varpa fram þessari sprengju sem frumvarpið er og af hverju nú? Ein kenningin er að þetta sé þvílík storkun, þetta að ganga á bak gerðum samningum, að það virðist eins og breska stjórnin sé að undirbúa að slíta samningaviðræðunum. Því hafnar forsætisráðherra, Bretar vilji semja. Þessi grunur um yfirvofandi samningsslit Breta hangir samt í loftinu. Eins og dagblaðið Financial Times hafði eftir ónafngreindum embættismanni í Brussel: ef Bretar vilja ekki semja af hverju þá ekki bara að segja það?