Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Andakílsá hefur náð sér á strik eftir umhverfisslys

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Lífríki Andakílsár hefur náð sér á strik eftir að tugþúsundir tonna af aur flæddu í ána í umhverfisslysi 2017. Meira en sex hundruð laxar hafa veiðst þar í vísindaveiðum í sumar.

Vísindaveiðar hafa verið í Andakílsá í Borgarfirði í sumar. Það er í fyrsta skipti sem veitt er í ánni frá því umhverfisslys varð þar 2017. Í morgun var sex hundraðasti laxinn veiddur í ánni en vísindaveiðar hófust þar um miðjan júlí og lýkur nú í september. Umhverfisslys varð í ánni í maí 2017. Þá var fyrir mistök hleypt úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar. Við það flæddu út í ána tuttugu til þrjátíu þúsund tonn af uppsöfnuðum aur úr lóninu.

„Þá var botninn þakinn í kannski þrjátíu sentimetra drullulagi,“ segir Sigurður Már Einarsson, sérfræðingur á ferskvatnssviði hjá Hafrannsóknastofnun.

Slysið var áfall fyrir lífríki árinnar en síðan þá hefur verið unnið að því að reisa það við. Veiðar sumarsins sýna að áin hefur náð sér á strik og er tegundafjölbreytni nú nálægt því sem áður var.

„Við vorum raunverulega mjög hissa á því hvað þessi náttúrulegu ferlar í ánni voru fljótir að vinna,“ segir Sigurður.

Léttir hve vel hefur gengið

Ragnhildur Helga Jónsdóttir, formaður Veiðifélags Andakílsár, segir að einungis vel kunnugir veiðimenn hafa fengið að taka þátt í veiðunum.

„Það eru ákveðnir staðir sem eru breyttir en margir staðir sem koma vel út, sem betur fer. Okkur er létt, eftir þetta, hvernig það hefur gengið í sumar.“

ON hefur tekið þátt í aðgerðum

Orka náttúrunnar hefur tekið þátt í aðgerðum til að reisa lífríki árinnar við. Samkvæmt framkvæmdastýru fyrirtækisins, Berglindi Rán Ólafsdóttur, er kostnaður við það sem og bætur til veiðifélaga um áttatíu milljónir króna. 

Skorradalshreppur kærði atvikið til lögreglu sem hætti rannsókninni í maí 2018. Ríkissaksóknari felldi þá ákvörðun úr gildi í september sama ár og gerði lögreglu að rannsaka málið betur. Nú, meira en þremur árum eftir atvikið, er málið enn til rannsóknar hjá lögreglunni á Vesturlandi.

Nú á að selja í ána að nýju en Ragnhildur segir að áhyggjur eru þó uppi um að atvikið endurtaki sig.

„Því það hefur enn ekki verið tæmt úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar þannig það er gríðarlegt magn af seti sem þar er. Auðvitað vonar maður að slík mannleg mistök eða óhapp verði ekki aftur.“