Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aftur að hefjast starfsemi hjá Hrísey Seafood

11.09.2020 - 19:45
Mynd með færslu
Hrísey Seafood hefur keypt húsið með bláa þakinu til hægri Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Nú er aftur að hefjast starfsemi hjá Hrísey Seafood en eigendurnir hafa fest kaup á húsnæði undir fiskverkun í stað þess sem eyðilagðist í eldi í vor. Engin vinnsla hefur verið hjá fyrirtækinu síðan þá.

Það var 28. maí sem stærstur hluti húsnæðis Hrísey Seafood nánast brann til grunna. Fiskverkunin var langstærsti vinnuveitandinn í Hrísey með 10-15 starfsmenn, auk áhafa tveggja báta sem lönduðu hjá fyrirtækinu.

Eru að undirbúa starfsemi á ný

Það var því mikið áfall fyrir samfélagið að þessi starfsemi skyldi stöðvast. En nú er að verða breyting á því. „Já, það eru þau jákvæðu tiðindi að við erum í rauninni að undirbúa núna að reyna að byrja aftur grunnstarfsemi,“ segir Sigurður Jóelsson, annar eiganda Hrísey Seafood. 

Keyptu húsnæði af Byggðastofnun

Þau hafa nú keypt húsnæði af Byggðastofnun, beint á móti húsunum sem brunnu, og eru að hefja þar endurbætur og breytingar til að fá vinnsluleyfi. Þá eyðilagðist allur tækjabúnaður í brunanum og hann þarf að kaupa. Sigurður segir stefnt að því, til að byrja með, að taka á móti afla af bátum fyrirtækisins og þróa starfsemina svo áfram smátt og smátt.

Mjög mikilvægt að geta byrjað aftur í Hrísey

Hann segir of snemmt að segja til um hvenær vinnsla hefjist, en mjög mikilvægt sé að geta byrjað aftur í Hrísey. „Það var kominn smá þungi í fólk að ekkert væri að gerast og mönnum fannst þetta kannski vera að tala langan tíma, sem ég get svosem alveg tekið undir. Þetta hefur ekki gengið eins hratt og maður vildi. Það virðist vera dálítið þungt kerfi í kringum tryggingafélögin, hvernig eigi að leysa þessi mál. Þannig að það var orðið tímabært að allavega gefa einhverja von um að eitthvað væri að fara að gerast aftur."