Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja auglýsa skipulagsbreytingu fyrir Oddeyri

10.09.2020 - 15:27
Hugmyndir að uppbyggingu á Oddeyri á Akureyri, allt að ellefu hæða hús.
Fyrstu hugmyndir gerðu ráð fyrir allt að 11 hæða húsum Mynd: Zeppelin
Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur lagt til að auglýst verði breyting á aðalskipulagi Akureyrar sem nær yfir nýtt íbúðasvæði á Oddeyri. Fyrir tæpu ári voru kynntar hugmyndir um allt að 11 hæða hús á svæðinu. Þær hugmyndir hlutu mikla gagnrýni.

Afgreiðslu þessa máls var frestað í júní, en áður hafði skipulagsráð samþykkt nýja skipulagstillögu sem gerir ráð fyrir mun lægri byggingum.

Í fundargerð ráðsins frá í gær, kemur fram að síðan í júní hafi verið fundað með fulltrúum hverfisnefndar Oddeyrar, eigendum mannvirkja á skipulagssvæðinu og fleirum.

Nú hefur meirihluti skipulagsráðs lagt til við bæjarstjórn að aðalskipulagsbreytingin verði auglýst. Komið hafi verið til móts við athugasemdir um hæð bygginga með því að takmarka hæð þeirra við 25 metra yfir sjávarmáli. Það þýðir að hámarki 7 hæða hús.

Arnfríður Kjartansdóttir, fulltrúi V-lista, greiddi atkvæði gegn tillögunni og telur ekki rétt að ganga gegn vilja íbúanna og byggja háhýsi á þessum reit.

default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Skipulagssvæðið á Oddeyri