Vegagerðin hefur taumhald á flugverði í Loftbrú

10.09.2020 - 12:51
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Annar stofnenda Facebook-hópsins Dýrt innanlandsflug, fagnar loftbrú stjórnvalda með 40% niðurgreiðslu þriggja ferða á ári og segir hana áfangasigur fyrir fólk á landsbyggðinni. Hann hvetur flugfélög til að halda aftur af verðhækkunum og nýta tækifærið til bæta sætanýtingu og hagkvæmni. Ákvæði í samningi við flugfélögin eiga að halda aftur af verðhækkunum svo að niðurgreiðslan endi hjá notendum.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra kynnti svokallaða Loftbrú á blaðamannafundi á Egilsstaðaflugvelli í gær. 40% niðurgreiðsla þriggja ferða á ári er niðurstaðan eftir þónokkra skoðun á svokallaðri skoskri leið sem Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, kynnti í blaðagrein árið 2016. Starfshópur Jóns Gunnarssonar, þáverandi ráðherra, undir forustu Njáls Trausta Friðbertssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, lagði svo til 2018 að skoska leiðin yrði farin til að gera innanlandsflug að almenningssamgöngum. Lagt var til að ríkið greiddi helming fargjalds og fjórar ferðir á ári.

Innanlandsflug ekki enn fyrir alla

Árið 2016 var hópurinn Dýrt innanlandsflug stofnaður á Facebook. Þar deildi fólk upplýsingum um upphæðirnar sem það borgaði fyrir flugmiða. Unnar Erlingsson er annar stofnenda hópsins. „Skrefin sem hafa verið tekin á leiðinni bentu til þess að þetta yrðu fleiri ferðir og meiri afsláttur. Við teljum enn að innanlandsflug sé dýrt og þó það sé niðurgreitt um 40% þá er þetta ekki fyrir alla. En vissulega stækkar potturinn mjög mikið og við erum gríðarlega ánægð með árangurinn.“

Tækifæri til að fjölga farþegum og bæta reksturinn

Í samningi flugfélaganna sem taka þátt í Loftbrú og Vegagerðarinnar eru ákvæði um verðhækkanir sem eiga að tryggja að afslátturinn skili sér til notenda. Þá eiga notendur á höfuðborgarsvæðinu og nærsveitum ekki rétt á niðurgreiðslunni og verðhækkanir myndu fæla þá frá.

Samkvæmt óformlegri könnun í hópnum Dýrt innanlandsflug var fólk að meðaltali tilbúið að borga sjálft um 16 þúsund krónur fyrir flug til Reykjavíkur og til baka til að geta nýtt það reglulega. Þegar fyrsta ferðin var bókuð í gegnum Loftbrú í gær Egilsstaðir-Reykjavík-Egilsstaðir í október átti hún að kosta um 38 þúsund á fullu verði en fór niður í rúm 22 þúsund. Unnar telur að niðurgreiðslan skapi tækifæri fyrir flugfélögin ekki síst Iceland Air Connect. „Til þess að auka nýtingu og kosti þess að það eru fleiri að fara að fljúga og að það verði til þess að bæta rekstur flugfélagsins.“

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi