Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þörf á aukinni heimild þótt að urðun minnki

10.09.2020 - 22:35
Myndir frá urðunarstað Sorpurðunar Vesturlands í Fíflholtum í Mýrum á Vesturlandi
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Borgarbyggð vill ekki að urðunarheimild í Fíflholtum á Mýrum verði aukin um tíu þúsund tonn á ári. Framkvæmdastjóri Sorpurðunar Vesturlands segir að það sé nauðsynlegt þó svo að það dragi úr urðun á næstu árum.

Sorpurðun Vesturlands sækist eftir því að auka leyfilegt urðunarmagn í Fíflholtum á Mýrum um tíu þúsund tonn á ári og fara þar með úr 15 í 25 þúsund tonn. Í Fíflholtum er urðað sorp af öllu Vesturlandi og Vestfjörðum. Einnig var tekið á móti sorpi af Suðurlandi í fyrra.

Nágranna Fíflholta hafa áður kvartað undan urðuninni og hefur Borgarbyggð nú sett sig upp á móti aukningu. í umsögn um frummatsskýrslu um aukninguna segi sveitarfélagið að það samræmist hvorki framtíðaráformum stjórnvalda né stefnu borgarbyggðar.

Hrefna Bryndís Jónsdóttir er framkvæmdastjóri Sorpurðunar Vesturlands.

„Það kom stjórn í opna skjöldu að þetta hafi farið svona til Skipulagsstofnunar á síðustu metrunum og ekkert samráð haft við eigendur. Þetta er þannig gert að við erum umfram heimild í dag, við erum með 15 þúsund tonna starfsleyfi hér og fórum í 17.500 í fyrra,“ segir hún.

Marka stefnu um sorp á Vesturlandi

Sveitarfélög á Vesturlandi eiga sorpurðunina. Í kjölfarið á umsögn Borgarbyggðar samþykktu þau að leggjast í stefnumótun til næstu tólf ára um sorpmál í landshlutanum. Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, formaður byggðarráðs í Borgarbyggð, vill að áform um tíu þúsund tonna aukningu verði ekki afgreidd á meðan.

„Þetta er mikið magn sem er verið að óska eftir þarna og við eigum bara eftir að sjá hvað kemur út úr þessari vinnu,“ segir hún.

Hrefna segir viðbúið að það dragi úr urðun á næstu árum með aukinni flokkun. Fyrirséð sé þó að farið verði fram úr heimildum í ár líkt og síðustu tvö ár.

En ef það er fyrirséð að urðun minnki, er þá þörf á að auka heimildina?

„Já, við stöndum við það.“