Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Þegar Sigurður urrar stekk ég úr búrinu“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þegar Sigurður urrar stekk ég úr búrinu“

10.09.2020 - 11:11

Höfundar

„Ég er meira naut verandi eldri svo ég fæ meira svona „urrrr,“ segir Sigurður Guðmundsson um þau skipti sem hann og yngri bróðir hans, vinur og samstarfsfélagi Guðmundur Óskar verða ósáttir. Litli bróðir er fljótur að lúffa en oftast eru þeir mestu mátar. Þeir skipa hljómsveitina GÓSS ásamt Sigríði Thorlacius.

Bræðurnir Sigurður og Guðmundur Óskar Guðmundssynir eru tónelskir og nánir. Sigurður er einn stofnenda reggísveitarinnar Hjálma og Guðmundur Óskar hefur verið í hljómsveitinni Hjaltalín frá upphafi en það var einmitt í þeirri sveit sem samstarf hans og Sigríðar Thorlacius hófst. Bræðurnir eru svipaðir á margan hátt og deila tónlistaráhuga sínum en eru til dæmis með ólíkan fatastíl. „Guðmundur er töluvert svartari en ég,“ segir Sigurður sem gjarnan klæðist litríkum fötum. „Það er meiri gleði í litunum af nauðsyn þar sem gleðin er ekki mikil innvortis,“ segir hann glettinn í Gestaboði hjá Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur á Rás 1. „Nei, ég segi svona. Jú, ég hef gaman að því að prýða mig skrautfjöðrum.“

Fékk hugljómun í kristilegum sumarbúðum

Bræðurnir ólust upp í Innri Njarðvík. Sigurður elstur í systkinahópnum en Guðmundur níu árum yngri. Foreldrar þeirra unnu mikið og voru oft að heiman en í næsta húsi bjuggu amma þeirra og afi og Gylfi föðurbróðir þeirra. Guðmundur var tveggja ára þegar afi þeirra lést en systkinin voru mikið heima hjá ömmu sinni og Gylfa frænda. „Pabbi vann uppi á velli og mamma var kórstjóri, píanókennari og organisti svo þetta var ekkert eðlilegt fjölskyldulíf,“ rifjar Guðmundur upp.

Og það voru hljóðfæri alls staðar, bæði á þeirra heimili og hjá ömmu þeirra. Það mátti alltaf snerta og prófa að spila á þau og drengirnir voru jafnan hvattir til að spreyta sig í hljóðfæraleik. Tónlistarkennslan lagðist þó misvel í þá. „Ég var látinn byrja að æfa á fiðlu þriggja ára en ég skipti svo yfir í selló og svo saxófón. Siggi hafði æft á saxófón sem unglingur en hann þurfti að hætta út af teinaveseni,“ segir Guðmundur Óskar en bróðir hans kann aðra skýringu á að hafa lagt saxófóninn á hilluna. „Það var meira afsökun en eitthvað annað. Ég hef sagt þá sögu að ég hafi verið látinn spila í skrúðgöngu með lúðrasveitinni í Keflavík en mér þótti svo leiðinlegt og óþægilegt að spila labbandi á blásturshljóðfæri að ég eiginlega gafst upp á þessu,“ segir Siguður. „Ég áttaði mig á að blásturshljóðfæri væru ekki minn pakki.“ Hann fann þó að hann langaði að byrja að syngja eins og foreldrar þeirra gerðu bæði en var ekki viss hvar hann ætti að byrja. „Ég hefði viljað vera í kór en hef kannski verið of mikil skrautfjöður,“ segir Sigurður sem fékk loks nokkuð óhefðbundna hugljómun í kristilegum sumarbúðum. „Það var kvöldvaka og þar var einhver Ingó Veðurguð með kassagítar. Þegar ég sá hann hugsaði ég: Þetta er snilld. Maður getur bæði spilað og sungið.“

Guðmundur sá bróður sinn taka upp gítarinn og langaði að gera það sama en hann langaði líka að byrja í hljómsveit. „Ég man eftir að hafa verið tólf ára, grátandi uppi í rúmi hjá mömmu: Mig langar að stofna hljómsveit,“ rifjar hann upp. Móðir þeirra sagði Guðmundi að það væri óþarfi að gráta, hann ætti bara að slá til. Og hann fór að ráðum hennar og hefur verið í hljómsveitum síðan.

Mynd: RÚV / RÚV
GÓSS flytja Kossar án vara í Vikunni með Gísla Marteini

Sigraði Elvis-eftirhermukeppni

Og þeir fóru báðir að grúska í tónlist en tónlistarsmekkurinn var ekki alveg sá sami. Guðmundur varð fanatískur Elvis-aðdáandi á tímabili og tók meðal annars þátt í Elvis-eftirhermukeppni hjá íslenska Elvis-eftirhermuklúbbnum og sigraði. „Ég keypti mér VHS-spólur og plaköt af honum í Kolaportinu og hengdi upp í herberginu,“ segir Guðmundur. Sigurður man eftir þessu. „Ég hafði áhyggjur af þessu á tímabili því þetta var undarleg samkoma þessi klúbbur og svona. En ég var hrifinn af Elvis líka.“

Hann reyndi heldur ekki oft að hafa áhrif á tónlistarsmekk litla bróður síns en einu sinni fannst honum hann þurfa að skerast í leikinn. „Þetta var í kringum árið 2000 þegar við bjuggum í Breiðholti og ég segi: Ertu búinn að heyra lagið með Whitney Houston?“ segir Guðmundur. Þetta var lagið Your Love is my Love með söngkonunni og Sigurður var alls ekki sammála um gæði lagsins heldur fannst bróðir sinn vera kominn á vafasamar slóðir. „Þá var Siggi bara: Úff. Hann lét mig fá bunka af tuttugu geisladiskum og þannig kynntist ég Cardigans, Pink Floyd og Bítlunum.“ Sigurður er enn stoltur af inngripinu. „Með fullri virðingu fyrir Whitney Houston var þetta lag ekki eitt af hennar bestu.“

Eftirpartý með Megasi í bílskúr á Flókagötu

Bræðurnir ólust upp við ólíkar aðstæður að mörgu leyti enda níu ár á milli þeirra. Þegar þeir urðu fullorðnir og fóru að nálgast hvor annan í aldri ef svo má segja kynntust þeir upp á nýtt og fóru að búa saman í bílskúr á Flókagötunni. Þá sambúð segja þeir ógleymanlega. „Þar var gestaboð á hverjum degi. Ég held að grillið hafi verið í gangi á nánast hverjum degi en það var mikið hlustað á músík og vakað frameftir,“ segir Sigurður. „Það voru líka nokkur epísk áramóta- og eftirpartý,“ segir Guðmundur. Og sum partýin sem þar voru haldin eru eftirminnilegri en önnur. „Undir það síðasta þegar við vorum búnir að búa til hljómsveitina Senuþjófarnir þá spiluðum við á Klambratúni með Megasi fyrir fjölda manns. Eftir það gigg var farið í skúrinn í partý og þangað kom Megas í geggjuðum fíling.“

Það má deila um hve fallegt heimilið þeirra í skúrnum var en Sigurður segir það hafa verið bæði sjarmerandi og heimilislegt. „Þar úði og grúði af alls kyns dóti. Við erum báðir með safnaraeðli og það ægir svolítið öllu saman en þar var allt til alls og hægt að elda mat, þvo þvott og sofa.“

„Þegar við spilum saman þarf ekki að tala“

Og í gegnum tíðina hafa bræðurnir spilað mikið saman og í sumar fóru þeir í tónleikaferð um landið með hljómsveit sinni GÓSS. Þegar þeir spila saman þá finna þeir algjöran samhljóm og þeir segja að þá þurfi ekki að skiptast á orðum. „Við erum á sömu sveiflunni þannig lagað enda finnst það alltaf því ef við spilum saman þá þarf ekki að tala,“ segir Sigurður. „Þetta er svona blóðtaug sem við finnum þegar við spilum saman, bloodharmony. Fyrirbæri sem er búið að rannsaka, þegar bræður eða systkini spila og syngja saman þá er einhver taug.“

Og þó þeir séu nánir vinir, bræður og samstarfsfélagar kemur fyrir að þeir verða ósáttir en þá er engin spurning hver lúffar. „Við getum ekki alltaf verið sammála og okkur finnast mismunandi hlutir um mismunandi hluti. Ég er meira naut verandi eldri svo ég fæ meira svona urr,“ segir Sigurður og Guðmundur tekur undir. „Þá bakka ég og stekk úr búrinu.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Sigurð og Guðmund Óskar Guðmundssyni í Gestaboði á Rás 1.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Kynntust í söngleik á Selfossi

Kvikmyndir

„Mamma tók mig með á bannaðar glæpamyndir“

Bókmenntir

„Það veit enginn hvort hann átti þetta barn“