Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Spá 1 til 4 smitum á dag næstu þrjár vikur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Spálíkan Háskóla Íslands gerir ráð fyrir því að fjöldi smita næstu þrjár vikur verði á bilinu eitt til fjögur en geti þó orðið 8 þótt á því séu litlar líkur. Þetta er breyting frá síðasta spálíkani þar sem því var spáð að fjöldi nýgreindra smita yrði á bilinu 1 til 5 en gætu orðið hátt í 11.

Þetta kemur fram í uppfærðu spálíkani sem birtist í dag. Þar er bent á að fjöldi nýgreindra smita geti sveiflast frá degi til dags. Stundum séu þau fá eða engin en aðra daga mörg.  Fjögur innanlandssmit greindust í dag, þar af voru tvö þegar í sóttkví. 

Þá kemur fram í spálíkaninu að líkurnar á engum smitum hafa hækkað enn frekar og eru nú frá um það bil 12%  í rétt rúmar 25% líkur.  „Við sjáum að alltaf er möguleiki á að mörg smit greinist, en þó minni líkur en í fyrri spám.“

Starfsmenn háskólans fylgjast einnig með þróun mála í öðrum löndum. Þannig virðist faraldurinn í Bretlandi vera í vexti og fjöldi greindra smita fylgt svartsýnni spá síðastliðna þrjá daga.

Faraldurinn í Danmörku og Þýskalandi virðist vera í hægum en stöðugum vexti þó fjöldi nýgreindra smita sveiflist á milli daga.