Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir lokun fangelsisins ekki veikja löggæslu

Mynd: Samsett mynd / RÚV
Dómsmálaráðherra segir að löggæsla á Norðurlandi eystra veikist ekki við lokun fangelsisins á Akureyri. Ákvörðunin hafi ekki þurft að fara í gegnum Alþingi en hægt verði að ræða hana þegar þing kemur saman að nýju.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, segir að tilgangurinn með lokun fangelsisins á Akureyri 15. september sé ekki að spara peninga heldur nýta betur það fjármagn sem sé í kerfinu.

Mikið samstarf var milli fangelsisins og lögreglunnar en Áslaug segir að lokunin eigi ekki að hafa áhrif á löggæslu á svæðinu. „En það er líka mikilvægt að Fangelsismálastofnun haldi ekki uppi ákveðnu stigi lögreglunnar á Norðurlandi eystra heldur að hún standi undir sjálfri sér og að við nýtum fangelsiskerfið okkar betur en nú er gert,“ segir Áslaug Arna.

Lögreglan verði styrkt og gerð sjálfstæðari og fangelsispláss nýtt betur. Fjölgað verður um fjögur stöðugildi hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra. Lögreglustjórinn og formaður Lögreglufélags Eyjafjarðar segja að það sé ekki nóg og að lokun fangelsisins eigi eftir að hafa áhrif á löggæslu.

Áslaug Arna tekur fyrir það. Það hafi verið mat ríkislögreglustjóra sem kannaði áhrif lokunar fangelsisins á löggæsluna að það þyrfti að bæta við fjórum mönnum og það verði gert. Mikilvægt sé að tveir bílar séu til taks til útkalls og þannig verði það nú þar sem það verði sex manns á vakt. Þá sé það auðvitað verkefni lögreglunnar að sinna föngum sem þau hafi í varðhaldi eins og á öðrum stöðum á landinu. 

Tryggja á úrræði til gæsluvarðhaldsvistar á Akureyri. Áslaug segir fyrirkomulagið á því sé í skoðun en það verði í höndum lögreglunnar. Þingmenn Norðausturkjördæmis og Afstaða, félag fanga, hafa gagnrýnt að fangelsinu verði lokað.

Hefði svona umræða þurft að fara í gegnum Alþingi? „Ákvörðunin þarf ekki að fara í gegnum Alþingi og það er vel hægt að taka þessa umræðu þegar þing kemur saman að nýju.“ segir Áslaug Arna. 

Viðtalið við Áslaugu Örnu má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan.