
Netárásin ekki valdið tjóni ennþá
Tölvuþrjótar gerðu stóra og fágaða fjárkúgunarárás á íslenskt fyrirtæki sem sinnir net-og hýsingarþjónustu. Árásin stóð yfir í langan tíma en góðar varnir og verkferlar komu í veg fyrir tjón.
Þorleifur Jónasson forstöðumaður tæknideildar Póst og fjarskiptastofnunnar segir að neyðarstjórn stofunarinnar hafi fundað í morgun og farið yfir stöðuna. Óvissustig verði í gildi í dag. Tímamörk árásarinnar hafi náð út daginn í dag og fylgst verði náið með framvindu mála. Fjarskiptafélög séu einnig á varðbergi gagnvart árásinni.
Fram kom í gær að árásin er svokölluð dreifð árás. Hafsteinn Baldvinsson, sérfræðingur hjá Cert.is sagði þá að úti sé net af sýktum tölvum sem síðan eru samnýttar til að gera árás á eitt fórnarlamb. Hann gat ekki upplýst neitt nánar um fyrirtækið sem varð fyrir árásinni.
Á vef Cert.is kemur fram að gerð hafi verið álagsárás sem hafi verið fylgt eftir með fjárkúgunarpósti. Þar er því hótað að mun stærri árás verði gerð ef greiðsla berist ekki fyrir tiltekin tíma. Yfirleitt séu svona hótanir orðin tóm en Cert.is segir ákveðnar vísbendingar um að þessi hópur ráði yfir getu til að gera árás af þeirri stærðargráðu sem hótað var. Því hafi verið ástæða til að taka hana alvarlega.