Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Macron hvetur til samstöðu gegn Tyrkjum

10.09.2020 - 11:32
Erlent · Asía · Frakkland · Grikkland · Tyrkland · Evrópa
epa08658311 French President Emmanuel Macron gives a press conference at Corsica's prefecture in Ajaccio, Corsica, France, 10 September 2020. French president is on a two day official trip to Corsica to attend the 7th MED7 Mediterranean countries summit held in Porticcio, near Ajaccio, on 10 September 2020.  EPA-EFE/LUDOVIC MARIN / POOL  MAXPPP OUT
Macron ræðir við fréttamenn á Korsíku í morgun. Mynd: EPA-EFE - AFP POOL
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, gagnrýndi stjórnvöld í Tyrklandi í morgun og sagði að framkoma þeirra í garð Grikkja og í öðrum málum væri ólíðandi. Hann hvatti ríki Evrópusambandsins til að móta sameiginlega afstöðu gagnvart Tyrkjum og tala einum rómi. 

Grikkir hafa sakað Tyrki um yfirgang í deilum þeirra um hafsvæði á austanverðu Miðjarðarhafi þar sem Tyrkir hafa verið með rannsóknarskip við leit að gasi í fylgd nokkurra herskipa.

Önnur mál hafa einnig leitt til spennu milli Tyrkja og Evrópusambandsríkja, þar á meðal hernaðaríhlutun Tyrkja í Líbíu og Sýrlandi og aðgerðir heima fyrir gegn andstæðingum Erdogans Tyrklandsforseta. 

Macron sagði að vegna þessa væri ekki hægt að líta á Tyrki sem samstarfsaðila á þessum sviðum, en kvaðst vona að hægt yrði að hefja á ný árangursríkar viðræður við stjórnvöld í Ankara.

Leiðtogar Frakklands, Ítalíu, Spánar, Grikklands, Portúgals, Kýpur og Möltu ætla að hittast á eynni Korsíku í dag þar sem þessi mál verða til umræðu.