Leggur til að sóttkví verði stytt úr 14 dögum í 7 daga

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur sent minnisblað til heilbrigðisráðherra þar sem hann leggur til að tíminn sem fólk þarf að vera í sóttkví verði styttur úr 14 dögum í 7 daga með sýnatöku á síðasta deginum. Þá mun hann senda minnisblað um skimanir á landamærunum í næstu viku en var ekki reiðubúinn að upplýsa hvað kæmi fram í því minnisblaði. Þó mátti á honum heyra að ekki væri von á miklum breytingum. „Mín afstaða hefur ekkert breyst frá síðasta minnisblaði.“

Þetta kom fram á upplýsingafundi Almannavarna og landlæknisembættisins í dag.  302 eru núna í sóttkví og 75 í einangrun. Fjögur ný smit greindust í gær, tveir voru þegar í sóttkví.

Þórólfur sagði enn fremur að aflétta þyrfti takmörkunum innanlands í litlum skrefum en hann ætti þó von á því að slakað yrði enn frekar á klónni í lok mánaðarins. 

Hann áréttaði að eins metra reglan væri mjög mikilvæg og sú mikilvægasta í samskiptum fólks.  „Við eigum eftir að útfæra þetta nánar en ég reikna með að þetta verði gert ef allt gengur vel.“

Þórólfur sagðist ekki telja að það væri skynsamlegt að aflétta takmörkunum á landamærunum á sama tíma og slakað væri á innanlands. Það gæti skapað þá hættu að faraldurinn myndi blossa upp að nýju.

Hann var spurður að því hvort til greina kæmi að hafa einhver viðmið um hvenær lönd teldust áhættusvæði og hvenær ekki. Þórólfur sagði margt koma til greina. Hann hefði þó verið á fundi með sínum kollegum í morgun þar sem mönnum leist illa á að það yrðu einhver alþjóðleg viðmið.

Þórólfur sagði að þróunin erlendis benti til þess að veiran væri í útbreiðslu, meðal annars í Danmörku, Noregi og Bretlandi. „Vaxandi útbreiðsla þýðir í mínum huga að auknar líkur eru á því að veiran berist hingað til lands.“ Hann benti á að stöðugur fjöldi væri að greinast með virkt smit á hverjum degi á landamærunum þrátt fyrir að ferðamönnum hefði fækkað.

Þetta hlutfall hefði verið 0,03 prósent í sumar en væri núna 0,3 prósent. Hann sagði að 60 prósent þeirra sem væri að greinast ætti lögheimili á Íslandi, 24 prósent væru íslenskir ríkisborgarar en aðrir væru með mjög dreifð ríkisföng.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi