Kvikmynd um geðhvörf með fílum og söngvum

Mynd: RÚV / RÚV

Kvikmynd um geðhvörf með fílum og söngvum

10.09.2020 - 14:43

Höfundar

Þriðji póllinn eftir Andra Snæ Magnason og Anní Ólafsdóttur verður opnunarmynd RIFF síðar í mánuðinum.

Þriðji póllinn fléttar saman sögum þeirra Önnu Töru Edwards og Högna Egilssonar, sem eru bæði með geðhvörf.   

„Þetta byrjaði þannig að Anna Tara hringdi í Högna og bað hann að koma til Nepal og halda tónleika til að vekja athygli á geðheilbrigðismálum,“ segir Anní Ólafsdóttir, sem leikstýrir myndinni með Andra Snæ. „Högni hringdi í okkur með viku fyrirvara og bað okkur um að mynda tónleikana.“ 

Anní og Andri komumst hins vegar fljótt að því þarna var mun stærri saga. 

„Anna Tara er alin upp í frumskógum Nepal. Pabbi hennar er breskur ævintýramaður sem strandaði í Nepal eftir að hafa keyrt Saab bíl frá Svíþjóð til Ástralíu. Hann kynnist íslenskri konu í laxveiði og þau ala upp börnin sín í frumskógum Nepal í návígi við tígrisdýr og nashyrninga. Móðirin fær síðan geðhvörf og fjölskyldan sundrast. Síðan fær Anna Tara geðhvörf upp úr tvítugu. Hún var búin að lifa í skömm í 20 ár, það mátti ekki tala um geðhvörf. Þegar Högni steig fram og ræddi sín geðhvörf varð hann innblástur fyrir hana að gera það sama og efna til geðheilsuumræðu í Nepal.“  

Þau segja að sagan hafi næstum því skrifað sig sjálf. 

„Það sem blasti við okkur var stór epísk  saga, sem fylgir ævintýraminninu. Þetta er klassískt ævintýri; fílaprinsessan er í vanda, hún er í álögum sem eru geðhvörf og skömm, og eina leiðin til að aflétta álögunum er að segja nafnið á óvættinum svo hátt að alþjóð heyri. Hún kallar til sín gítarhetjuna úr norðri, Högna, sem er búinn að aflétta sínum álögum hér heima. Hann flýgur yfir fjöllin sjö og saman fara þau í gegnum ákveðnar þrautir þangað til þau stíga á svið í Katmandú; skora  skömmina á hólm og kveða hana niður að ákveðnu leyti.“  

Við gerð myndarinnar komust þau Andri og Anní að því hvað geðhvörf eru algeng og hvað þetta getur verið hættulegur sjúkdómur, sem kostar fólk jafnvel lífið. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Anní Ólafsdóttir og Andri Snær Magnason.

„En við komumst líka að því að fólk getur lifað eðlilegu lífi ef það leitar sér hjálpar, fær lyf og samfélagið tekur utan um það. Þá er þetta bara eitt af þessu sem fólk glímir við almennt. En það er ákveðinn leikur í myndinni sem er kannski mikilvægur til að flytja svona alvarleg mál og koma þeim til stærri hóps.“  

Til stóð að frumsýna myndina í vor en því var frestað vegna Covid. Í millitíðinni fengu Anní og Andri hugmynd að annarri mynd.  

„Ég sá auglýsingu þar sem var verið að hvetja fólk til að senda inn dagbókarfærslu á því hvernig því liði á þessum tímum. Það ásamt tóminu, það var allt tómt, var kveikja og og ég spurði Andra: Hvernig föngum við þessa stemningu og tómið?“ 

Þau leituðu til listamanna og fengu þá til að nota öll auðu svæðin sem vettvang fyrir sína list.

„Unnur Elísabet dansar sig til dæmis í gegnum Leifsstöð og út á flugbrautina. Síðan töluðum við við skáld, heimspekinga og galdrakonur um hvaða merkingu það hefði að heimurinn væri stöðvaður. Í lok apríl vorum við allt í einu komin með tvær myndir.“  

En nú hillir loksins undir frumsýningu á Þriðja pólnum.  

„Við ætlum að frumsýna þótt við verðum bara tvö í salnum,“ segja þau og hlæja. Ég geri ráð fyrir að það verði hægt að hafa að minnsta kost hundrað manna frumsýningu. Þá frumsýnum við hana bara tíu sinnum. Tíu litlar frumsýningar á einum degi.“  

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Þriðji póllinn er opnunarmynd RIFF

Kvikmyndir

Fannst óhugsandi að lifa að slökkt yrði á heiminum