Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Íslendingar taka loks kvef alvarlega

10.09.2020 - 15:37
Mynd:  / 
Stefnt er að því að fólk geti pantað sér sýnatöku fyrir Covid á netinu segir Óskar Reykdalsson læknir og forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Með aukinni skilvirkni verði betur hægt að mæta fólki sem er með annars konar sjúkdóma. Óskar telur að vegna covidveirunnar hafi margir haldið aftur af sér við að leita sér þjónustu lækna. „Það gefur auka leið að ef við ristilspeglum engan í tvo mánuði þá greinum við ekki ristilkrabbamein á þeim tíma. Öll frestun getur haft áhrif."

Óskar bendir á að í Svíþjóð hafi tíðni greininga dottið greinanlega niður og nú sé fólk að koma inn veikara en ella. „Það eru engar tölur um þetta hér heima en við höfum áhyggjur af þessu.“ Hann segir mikilvægt að almenningur skilji að sóttvarnaraðgerðir verji bæði sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólk; blóðprufur sýni að starfsfólk heilsugæslunnar sé ekki að smitast frekar en almenningur almennt, þó þau séu í framvarðasveit og taki og greini öll sýni. Það sé því engin aukin áhætta fólgin í því að leita til heilsugæslunnar. Þá muni álag vegna covidmála minnka verulega með aukinni tæknivæðingu þar sem fólk með væg einkenni geti hálfpartinn afgreitt sig sjálft á netinu, svarað þar nokkrum spurningum um heilsu sína og fengið svo sjálfvirkt úthlutað tíma í sýnatöku.

Óskar segir heilsugæsluna finna vel fyrir því að nú standi flensutíð sem hæst, haustið að halda innreið sina og skólarnir byrjaðir. Fólk sem hafi áður aldrei leitað til læknis vegna nefrennslis, hálsbólgu og hósta hringi nú inn í þúsundatali. Ljóst er að Íslendingar taka vægum flensueinkennum alvarlega á Covid tímum, það er af sem áður var þegar fólk lét það sjaldan aftra sér frá því að mæta til vinnu.  Óskar segir þetta vel, þarna geti mögulega falist ágætur lærdómur fyrir samfélagið. „Í mörgum löndum er þetta litið alvarlegri augum en hjá fólki hér heima,“ segir Óskar og segist þekkja þetta sjálfur, þegar hann bjó erlendis þótti honum skrítið að fólk væri heima vegna smá kvefs.  „En við erum kannski bara sein að læra hérna heima.“

Óskar ræddi einnig um aukningu á andlegum veikindum og því hvernig heilsgæslan undirbúi sig fyrir að taka yfir skimanir fyrir krabbameini í leghálsi eftir áramót.

Hlusta má á viðtalið úr Samfélaginu í spilaranum hér að ofan. 

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður