Hvassviðri eða stormur á norðvesturhorninu

10.09.2020 - 23:46
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Útlit er fyrir norðaustan hvassviðri eða storm á norðvesturhorni landsins í nótt og fram á morgun, mislengi eftir landshlutum. Veðrið gekk fyrst inn á Vestfirði í kvöld, færist yfir á Breiðafjörð snemma nætur og lætur til sín taka við Snæfellsnesi á morgun. Á norðanverðum Ströndum er útlit fyrir mikla rigningu með tilheyrandi vatnavöxtum og hættu á skriðuföllum og flóðum. Gular viðvaranir hafa verið gefnar út.

Útlit er fyrir að vindur verði á bilinu fimmtán til 23 metrar á sekúndu á Vestfjörðum og Breiðafirði fram á kvöld á morgun. Vindur verður aðeins minni á sunnanverðu Snæfellsnesi þar sem búist er við leiðindaveðri frá hádegi á morgun fram á kvöld en þar verður þó allhvass vindur eða hvassviðri.

Á Ströndum er það ekki hvassviðrið heldur rigningin sem getur valdið vandræðum. Flóð og skriðuföll gætu valdið tjóni og raskað samgöngum samkvæmt viðvörun Veðurstofunnar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi