Helmingur sýnir einkenni 5 til 6 dögum eftir smit

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnadeild ríkislögregl
Helmingur þeirra sem hefur smitast af COVID-19 hér á landi fá einkenni 5 til 6 dögum eftir smit og flestir fá einkenni innan 9 til 10 daga. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að kórónuveiran greinist í nefkoki smitaðra 2 til 3 dögum fyrir upphaf einkenna.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í tveimur minnisblöðum Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, til heilbrigðisráðherra. Þar leggur Þórólfur til að sóttkví þeirra sem hafa orðið útsettir fyrir smiti verði stytt úr 14 dögum í 7 daga með sýnatöku á síðasta degi. 

Þórólfur segir í fyrra minnisblaðinu að það væri mikill ávinningur ef hægt væri að stytta sóttkví.  Hann segir að eftir sjö daga geti viðkomandi farið í skimun gegn veirunni og ef enginn ummerki finnast um hana losni þeir úr sóttkví. Þeir verða þó áfram beðnir um að gæta vel að sóttvörnum og forðast samneyti við viðkvæma einstaklinga næstu sjö daga.

Sýnatakan á sjöunda degi verður fólki að kostnaðarlausu.

Í seinna minnisblaðinu leggur Þórólfur áherslu á að ekki verði hægt að bjóða þeim sem velja 14 daga sóttkví við komuna til landsins  upp á þennan valmöguleika.  Fólk sem kýs þetta sleppur þá við sýnatöku á landamærunum.  Þórólfur segir að þeir sem komi til landsins geti verið með veiruna í greinanlegu magni við komuna og þannig smitandi strax. Þeir þurfi því að fara í einangrun. 

Þá segir hann það ekki rökrétt að bjóða einstaklingum upp á 7 daga sóttkví með sýnatöku í lok hennar þegar þeim standi til boða sýnataka við komu, 5 daga sóttkví og svo aðra sýnatöku.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi