Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gera ekki breytingar til bjargar einstaka fjölskyldum

Mynd: RÚV / RÚV
Flytja á sex manna fjölskyldu frá Egyptalandi, sem dvalið hefur á Íslandi í meira en tvö ár, úr landi í næstu viku. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, segir ekki koma til greina að gera reglugerðarbreytingar til að bjarga einstaka fjölskyldum sem fara í fjölmiðla.

Hafa verið hér á landi frá 2018

Hjónin Dooa og Ibrahim komu hingað til lands 7. ágúst 2018. Þau sóttu um alþjóðlega vernd fyrir sig og börn sín fjögur, Rewidu, Abdalla, Hamza og Mustafa. Börnin eru á aldrinum tólf til tveggja ára. Útlendingastofnun synjaði þeim um vernd í lok júlí í fyrra og var sú ákvörðun staðfest af kærunefnd útlendingamála rúmum 15 mánuðum síðar. Reglugerð dómsmálaráðherra frá því í lok síðasta árs, um að veita skuli dvalarleyfi af mannúðarástæðum ef málsmeðferð hefur varað lengur en í 16 mánuði, átti því ekki við um fjölskylduna.

Vísað úr landi í næstu viku

 Til stendur að vísa þeim út landi á miðvikudaginn. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra hyggst ekki beita sér sérstaklega í málinu. 

„Við höfum stytt málsmeðferðartíma og sérstaklega í málum barna svo að það taki ekki lengur en sextán mánuði í tilviki þeirra að afgreiða mál og ef það tekur lengri tíma en það þá fær fólk hér mannúðarleyfi,“ segir Áslaug.

Nú er þetta búið að taka, frá því að þau koma til landsins og þangað til þau verða flutt úr landi er yfir tuttugu og fimm mánuðir. Þetta skýtur svolítið skökku við er það ekki?

„Já, málsmeðferðartíminn miðast við það að málinu sé lokið stjórnsýslustigi og að það sé komin endanleg niðurstaða frá kærunefnd útlendingamála sem er sjálfstæður úrskurðaraðili.“

„Gerum ekki reglugerðarbreytingar til að bjarga einstaka fjölskyldum“

Á þessum rúmum tveimur árum hefur fjölskyldan fest rætur á Íslandi. Börnin hafa gengið í skóla og leikskóla, lært íslensku og eignast vini. Áslaug segir segir einstaka mál flóttafólks ekki á sinni könnu. 

Þannig að í þessu tilfelli kemur ekki til greina að gera reglugerðarbreytingu til að bjarga þessari tilteknu fjölskyldu?

„Við gerum ekki reglugerðarbreytingar til að bjarga einstaka fjölskyldum sem fara í fjölmiðla.“