Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Funduðu í fyrsta sinn um framtíð samninganna

10.09.2020 - 21:26
Mynd með færslu
Lífskjarasamningar undirritaðir 3. apríl 2019. Mynd: Hófí - RÚV
Launa- og forsendunefnd stéttarfélaga og samtaka atvinnurekenda kom saman til fundar í morgun til að ræða þróun efnahagsmála og áhrif þeirra á stöðu lífskjarasamningsins sem undirritaður var í fyrravor. Þetta var fyrsti fundur nefndarinnar. Nefndarmenn ræddu starfið framundan og hvernig nálgast bæri mat á stöðu kjarasamninga og hvort að samningurinn sé á vetur setjandi.

Lífskjarasamningarnir voru undirritaður í apríl í fyrra. Í þeim var ákvæði um að launa- og forsendunefnd myndi fara yfir stöðuna núna í september. Nefndin á að kanna hvort forsendur um kaupmátt launa og vaxtaþróun hafi staðist, sem og hvort að stjórnvöld hafi staðið við þau fyrirheit sem þau gáfu við gerð kjarasamninga. Nefndin á að tilkynna niðurstöðu sína fyrir lok mánaðar. Standist forsendur samningsins ekki eiga samninganefndir að hittast og ræða viðbrögð, hvort og þá hvernig samningurinn haldi gildi sínu. Náist slíkt samkomulag ekki fellur samningurinn úr gildi 1. október. 

Lífskjarasamningarnir voru undirritaðir í skugga gjaldþrots Wow air og áttu að taka mið af því að um hægðist í efnahagslífinu. Síðan þá hefur heimsfaraldur vegna kórónuveirunnar valdið miklum efnahagslegum áföllum á heimsvísu.