Fjórir með innanlandssmit - helmingurinn í sóttkví

Frá skimun ÍE á Akranesi hjá slembiúrtaki 2. ágúst 2020.
 Mynd: Almannavarnadeild ríkislögregl
Fjórir greindust með kórónuveirusmit innanlands í gær og var helmingur þeirra í sóttkví. Þrír bíða eftir niðurstöðu úr mótefnamælingu eftir skimun á landamærunum. Nýgengi smita á Íslandi á hverja hundrað þúsund íbúa er nú komið undir 20. Það er það viðmið sem mörg lönd horfa til þegar metið er hvort svæði séu há-áhættusvæði eða ekki.

Staðfest smit eru í fimm af átta landshlutum, Austurland, Vesturland og Norðurland vestra eru þeir landshlutar sem eru án staðfestra smita. Austurland er þó eini landshlutinn þar sem enginn er í einangrun eða sóttkví.

Samkvæmt sóttvarnastofnun Evrópu er nýgengi smita, það er samanlagður fjöldi smita síðustu fjórtán daga á hverja 100 þúsund íbúa, nú 19,9. Aðeins Finnland er með lægra nýgengi á Norðurlöndum en til samanburðar má nefna að nýgengi smita í Noregi er 22 og 35,7 í Danmörku.

Almannavarnir og landlæknir hafa boðað til upplýsingafundar klukkan 14. Þar munu Þórólfur og Alma fara yfir stöðu mála ásamt Rögnvaldi Ólafssyni frá embætti ríkislögreglustjóra. Sýnt verður beint frá fundinum á vef RÚV, í sjónvarpi og honum útvarpað á Rás 2.

 
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi