Mikill eldur logar nú í höfninni í Beirút. Þykkan svartan reyk leggur frá vöruhúsi þar sem olía og dekk hafa verið geymd.
Eldurinn hefur vakið óhug meðal íbúa Beirút sem eru enn að jafna sig eftir mikla sprengingu í höfninni fjórða ágúst síðastliðinn sem varð yfir hundrað og níutíu manns að bana. Sú sprenging varð í áburði sem hafði verið geymdur í höfninni árum saman og stjórnvöld vissu af. Það kom af stað mikilli mótmælaöldu sem endaði með því að ríkisstjórnin sagði af sér.
Slökkvistarf er í fullum gangi og taka þyrlur frá hernum meðal annars þátt í því. Ekki er vitað um eldsupptök.